Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Menn í vinnu fyrsta fyrirtækið sem er sektað

18.04.2019 - 08:27
Mynd með færslu
 Mynd:
Vinnumálastofnun lagði 2,5 milljóna króna stjórnvaldssekt á starfsmannaleiguna Menn í vinnu. Unnur Sverrisdóttir, forstjóri Vinnumálastofnunar, segir þetta nýja heimild og í fyrsta sinn sem henni er beitt. Ástæða sektarinnar er misræmi í skráningum starfsmanna fyrirtækisins hjá Vinnumálastofnun. Unnur segir að í ljós hafi komið að fjöldi starfsfólks hjá starfsmannaleigunni væri ekki skráð hjá stofnuninni. Halla Rut Bjarnadóttir, annar eigenda Manna í vinnu, segir sektina tilhæfulausa.

Unnur segir málið snúa að fjölda starfsmanna sem ekki hafi verið skráðir hjá Vinnumálastofnun. Starfsmannaleigum sé skylt samkvæmt lögum um starfsmannaleigur að veita upplýsingar um starfsmenn. Sektin var lögð á Menn í vinnu í síðasta mánuði.

Mistökin leiðrétt

Menn í vinnu hafa kært ákvörðun Vinnumálastofnunar til Félagsmálaráðuneytisins. Halla Rut segir að mistök hafi orðið hjá nýjum starfsmanni við skráningu upplýsinga á vef Vinnumálastofnunar. Það hafi hins vegar verið leiðrétt um leið og fyrirtækinu barst bréf frá stofnuninni. Einnig óskuðu Menn í vinnu eftir upplýsingum um þá sjö starfsmenn sem Vinnumálastofnun gerði athugasemd við varðandi skráningu. Hún segir engin svör hafa borist frá stofnuninni fyrr en sú beiðni var ítrekuð. 

Höfða einnig meiðyrðamál

Jóhannes S. Ólafsson, lögmaður Manna í vinnu, segir augljóst að ákvörðun Vinnumálastofnunar standist ekki lög og er því farið fram á að hún verði felld úr gildi. Til vara er krafist að sektin verði lækkuð verulega. 

Starfsmannaleigan Menn í vinnu hefur einnig stefnt Unni Sverrisdóttur og Maríu Lóu Friðjónsdóttur, sérfræðingi ASÍ, persónulega vegna ummæla þeirra um fyrirtækið í fréttum. Fyrirtækið krefst tveggja milljóna króna af hvorri um sig í miskabætur og hálfrar milljónar að auki frá hvorri til að standa straum af birtingu dómsniðurstöðunnar í fjölmiðlum.

helenars's picture
Helena Rós Sturludóttir
Fréttastofa RÚV