Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Mengunin gæti skemmt tennur

17.02.2013 - 18:02
Mynd með færslu
 Mynd:
Aukin flúormengun frá álveri Alcoa Fjarðaáls síðastliðið sumar gæti átt eftir að skemma tennur ungra dýra í Reyðarfirði. Þetta kemur fram í greinargerð Matvælastofnunar vegna mengunarinnar.

Síðstliðið haust sýndu gróðursýni sumarsins að styrkur flúors í grasi var yfir mörkum fyrir grasbíta víða í Reyðarfirði. Ástæðan var aukin flúormengun frá álveri Alcoa sem uppgötvaðist ekki vegna bilunar í mengunarmælum og skorts á kvörðun og eftirliti með mælunum. Náttúrustofa Austurlands ásamt dýralæknum skoðuðu bein grasbíta í firðinum og komust að því að mengunin hefði ekki valdið eitrun.

Matvælastofnun telur hinsvegar ástæðu til að fylgjast áfram með. Ekki sé útilokað að mikið flúor geti síðar spillt tannheilsu ungra dýra sem bitu gras þar sem flúormengun var mest. Of mikið flúor þegar glerungur tanna er að myndast, frá fæðingu og fram á tannskiptum, skapi hættu á að glerungurinn verði lélegur og tennur skemmist um tveimur árum eftir upptöku flúorsins. Því vill Matvælsstofnun fylgjast með tönnum líflamba og ungra kinda, folalda og tryppa, ásetningskálfa, kvíga og ungra mjólkurkúa.

Matvælastofnun hefur óskað eftir því við Umhverfisstofnun að vöktun verði aukin, sýnatökustöðum fjölgað og bein sláturgripa skoðuð. Sýni sem tekin voru úr heyi reyndust ekki yfir viðmiðunarmörkum, aðeins gras sem dýrin bitu úti í haga. Tekið er fram að fólki stafar engin hætta af neyslu búfjárafurða eða matjurta úr Reyðarfirði.