Mengun vegna flugelda meiri en í Kína

21.09.2018 - 22:20
Minnka þarf flugeldanotkun strax. Hún er óhófleg og grafalvarlegt vandamál, að mati fræðimanna við Háskóla Íslands. Meiri mengun er af sprengjugleði Íslendinga en í milljónasamfélögum í Kína og á Indlandi. Umhverfisráðherra segir málið flókið.

Hrund Andradóttir og Þröstur Þorsteinsson, prófessorar við verkfræði- og náttúruvísindasvið Háskóla Íslands, kynntu niðurstöður rannsóknar á mengun af völdum flugelda í dag. Þau segja flugeldanotkun Íslendinga óhóflega og grafalvarlegt vandamál. Mengun af völdum flugelda er meiri á höfuðborgarsvæðinu en í milljónasamfélögum eins og Peking í Kína og Nýju Delí á Indlandi. Síðustu áramót var raunar slegið vafasamt met, Evrópumet í mengun.

Hvað finnst umhverfisráðherra um þessar niðurstöður?
„Mín fyrstu viðbrögð eru þau, okkur stjórnvöldum ber náttúrulega að hugsa fyrst og femst umheilsu borgaranna þegar kemur að málefnum sem þessum. En það má kannski segja að, við getum kallað þetta flugeldamálið, að það er allflókið,“ segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra. 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV/Þór Ægisson
Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra.

Skemmtun og styrkur við Björgunarsveitir

Málið er flókið, meðal annars vegna aðkomu Björgunarsveitanna. Samkvæmt niðurstöðunum eru helstu ástæður flugeldanotkunar fólks skemmtun og styrkur til Björgunarsveita. Flugeldar eru sagðir hluti af menningu og jafnvel sjálfsmynd Íslendinga.

En hvað vegur þyngst að mati ráðherra?
„Almenn heilsa fólks og loftgæði verða að vera númer eitt hjá okkur. Ég held að við séum núna að hefja ákveðna vegferð og samtal í samfélaginu,“ segir ráðherra. 

Meirihluti hlynntur strangari reglum

Við rannsóknina var gerð skoðanakönnun sem leiddi í ljós að meirihluti þjóðarinnar, eða 57% er hlynntur strangari reglum um notkun flugelda. Þá eru 27% hlynnt banni við almennri notkun flugelda.

Nú er þetta búið að vera í umræðunni síðan fyrir síðustu áramót. Hvað er búið að gera? 

„Ég stofnaði stýrihóp sem að á að takast á við að greina áhrif af svifryki almennt. Ég setti það sem forgangsverkefni fyrir stýrihópinn að fjalla um þessi flugeldamál þannig að það svona er að byrja að taka á sig mynd. Hvernig hann er að vinna með þessi mál og ég vonast til þess að við sjáum einhverja tillögur frá þessum hópi um hvernig við getum tekist á við þetta sem fyrst. En ég lofa því ekki nákvæmlega hvenær það kemur,“ segir Guðmundur Ingi. 

 

olofr's picture
Ólöf Ragnarsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi