Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Mengun í Varmá vegna ýmissa eiturefna

20.07.2017 - 14:57
Mengunar hefur orðið vart í Varmál í Mosfellsbæ. Myndirnar eru teknar í júlí 2017.
 Mynd: RÚV - Þór Ægisson
Líklegt er að fiskar í Varmá hafi drepist á dögunum vegna ýmissa efna sem bárust í ána, þar á meðal eru ammoníak og skordýraeitur. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Heilbrigðiseftirliti Kjósarsvæðis.

Skoðun Heilbrigðiseftirlitsins sýnir að líklegast sé að fiskarnir hafi drepist vegna skyndilegrar mengunar vegna efnanotkunar. Talið er að efnin hafi borist í Varmá um regnvatnslagnir sem taka ofanvatn eða regnvatn í niðurföllum á götum og lóðum. Í tilkynningu eftirlitsins segir að í einhverjum tilvikum geti niðurföll í bílskúrum og heitir pottar líka verið tengdir inn á regnvatnskerfi og efni borist þaðan í Varmá.

Líklegustu efnin eru talin vera skordýraeitur, plöntueitur, sveppaeitur, klór, ammoníak og sterk þvottaefni. Í tilkynningunni segir að ammoníak geti meðal annars komið við útskolun á skítahaugum og rotþróm. Mögulegt er talið að mengunin hafi komið frá svæðinu beggja vegna Varmár, sunnan Reykjalundarvegar að Skammadalsvegi.

Greint var frá því í frétt RÚV að þann 9. júlí hafi áin verið grá á litinn. 13. júlí var svo líkt því að olíubrák hefði borist í ána.