Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Mengun í Mývatnssveit í gærkvöld

15.09.2014 - 07:14
Mynd með færslu
 Mynd:
Brennisteinsdíoxíðmengun mældist yfir 1.250 míkrógrömm á rúmmetra við grunnskólann í Reykjahlíð í Mývatnssveit um ellefu-leytið í gærkvöld, sem er mun meira en mældist yfir daginn vegna eldgossins í Holuhrauni.

Brennisteinsdíoxíð telst vera yfir heilsumörkum þegar það er komið yfir 600 míkrógrömm á rúmmetra. Mengunin mældist í stuttan tíma í Mývatnssveit vegna eldgossins í Holuhrauni, en hún hefur verið í lágmarki eftir klukkan 11 í gærkvöld. Dökk móða lá yfir Mývatnssveitinni í gær og varð fólk þar vart við óþægindi í öndunarfærunum. Búist er við að mengun verði áfram yfir norðaustanverðu landinu í dag.

Mælingar á Grensásvegi í Reykjavík sýndu í gærkvöld óvenjuhátt magn brennisteinsdíoxíðs. Þorsteinn Jóhannsson, sérfræðingur í loftmengun hjá Umhverfisstofnun, segir hugsanlegt að áhrifa gossins sé að fara að gæta víðar en fyrir norðan og austan. Það sé reyndar mjög lítið en í ljósi þessa misturs sem verið hafi í lofti í Reykjavík undanfarna daga séu menn að velta fyrir sér hvort það tengist eitthvað gosinu.

Í mælingum á Grensásvegi hafi mælst örlítil hækkun, varla þó marktæk eða 2-4 míkrógrömm, jafnvel aðeins meira. Hugsanlegt sé að eitthvað af gosefnum berist hingað eftir einhvern stóran hring suður í Atlantshaf og tilbaka.

Þorsteinn segir allt benda til að mengunin dreifist víðar ef fram heldur sem horfir. Miðað við sama gang í gosinu megi búist við svona háum styrk áfram, séstaklega á Norðausturlandi. Væntanlega breytist vindur eitthvað og þá megi í raun búast við þessu um allt land.