Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Mengun frá sorpbrennsluofnum við sláturhús

12.06.2017 - 12:41
Mynd með færslu
 Mynd: Jóhannes Jónsson - RUV.IS
Ítrekað hefur verið kvartað yfir lykt frá sorpbrennsluofnum sem settir voru upp við nokkur sláturhús á síðasta ári. Heilbrigðisfulltrúi á Norðurlandi vestra segir að nær hefði verið að sameinast um stærri og fullkomnari ofna.

Síðasta vor sóttu nokkrir sláturleyfishafar um leyfi til að taka í notkun brennsluofna fyrir sláturútgang. Þar var ætlunin að brenna áhættuvefi sem bannað er að urða. Þrír ofnanna eru á Sauðárkróki, Blönduósi og Hvammstanga.

Kvartað undan þremur ofnum á Norðvesturlandi

Sigurjón Þórðarson, framkvæmdastjóri Heilbrigðiseftirlits Norðurlands segir að kvartað hafi verið undan öllum þessum ofnum. „Það er kvartað undan reyk og lykt, eða aðallega lykt. Auðvitað erum við góðu vön á Íslandi, þannig að það þarf nú skki mikið til þess að fólk finni fyrir því ef eitthvað er öðruvísi en vant er og fólk sættir sig einfaldlega ekki við það." 

Ofnarnir megi ekki vera nálægt mannabyggð

Og þó ofnarnir séu vissulega framfaraspor í sóttvörnum segir Sigurjón að upplýsingar um að þeir myndu hvorki valda mengun eða óþægindum hafi ekki staðist. Því verði að huga betur að staðsetningu ofnanna. „Þá þarf að gæta að því að þeir séu ekki nálægt mannabyggðum."

Sameiginleg lausn æskileg

Leyfisveitingar fyrir brennsluofna við sláturhús hlutu talsverða gagnrýni frá sveitarstjórnarmönnum sem töldu það afturför að leyfa fjölda brennsluofna í stað þess að sameinast um viðunandi lausnir. Sigurjón segir nauðsynlegt að brenna þessum tiltekna úrgangi, en betra hefði verið að hafa ofnana færri og stærri. „Það væri þá sameiginlegur ofn sem hefði tekið frá fleiri sláturhúsum og séð um förgun á þeim úrgangi."  

 

agusto's picture
Ágúst Ólafsson
Fréttastofa RÚV