Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Mengun drepur fisk í Varmá

17.07.2017 - 12:33
Mynd: RÚV / Þór Ægisson
Fiskur hefur drepist í Varmá í Mosfellsbæ undanfarna daga, að því er virðist vegna mengunar. Engin sýni hafa verið tekin úr ánni, en heilbrigðisfulltrúi Mosfellsbæjar telur líklegast að mengunin komi úr regnvatnslögnum frá íbúðagötum í nágrenni árinnar.

 

Mengunarinnar varð fyrst vart í lok júní. Íbúar sem höfðu samband við fréttastofu töldu að þá hefði sápa streymt í ána. 9. júlí varð áin grá á litinn, og 13. júlí virtist sem olíubrák hefði borist í ána. Á föstudaginn urðu íbúar síðan varir við mikið af  dauðum silungi í ánni. 

Árni Davíðsson, heilbrigðisfulltrúi í Mosfellsbæ, segir að ekki hafi náðst sýni af menguðu árvatninu: „Við höfum ekki alveg skýringu á því hvers vegna fiskarnir drepast. Það er greinilegt að það hefur orðið eitthvert mengunarslys.“ 

Mengunin líklega frá íbúabyggð

Lítið er um iðnað við Varmá en þar er þó eggjabú og stundaður annar landbúnaður. Áin rennur í gegnum íbúahverfi og það er helst þaðan sem Árni telur að mengunin stafi.

„Það liggja einfaldlega mjög margir stútar út í ána sjálfa, og læki og skurði í kringum hana, sem flytja svokallað ofanvatn eða regnvatn, sem rennur svo að langmestu leyti út í ána á þessum slóðum,“ segir hann. „Og ef menn hella einhverju niður á bílastæði eða fyrir utan bílskúr eða í götu, þá getur sú mengun lent úti í ánni. Þess vegna eiga menn auðvitað ekki að hella neinu niður sem er mengandi.“

Árni segir að í nýrri hverfum sé regnvatnið leitt út í settjarnir eða hreinsiþrær til að hindra mengun en sú sé ekki raunin í eldri hverfum. Rannsaka þurfi mengunina í Varmá betur og leita skýringa á henni.

Kostir og gallar við nálægðina

Margir búa alveg við ána og fylgjast vel með lífríki hennar en Árni segir að nálægðin bjóði líka mengunarhættunni heim.

„Menn eru með potta og sundlaugar við sum hús og það er auðvitað ekki gott að tæma heitt vatn beint út í á, ég tala nú ekki um ef það er klórað, þá er það einfaldlega banvænt fyrir fiskana. Þessi mikla nálægð hefur bæði kosti og galla að þessu leyti.“

 

sigridurhb's picture
Sigríður Hagalín Björnsdóttir
Fréttastofa RÚV