Athugið þessi frétt er meira en 10 ára gömul.

Mengað hey í Reyðarfirði

08.10.2012 - 19:18
Mynd með færslu
 Mynd:
Svo gæti farið að stór hluti heyfengs úr Reyðarfirði verði dæmdur ónýtur. Ástæðan er flúormengun frá álveri Alcoa Fjarðaáls.

Álverið í Reyðarifirði má losa minna flúor á hvert framleitt tonn en önnur álver í landinu og hefur tekist að halda losun innan árlegra marka. En það kann ekki góðri lukku að stýra þegar búnaður bilar og mikið flúor sleppur út á stuttum tíma. Allra síst yfir sumarið þegar fóður grasbíta er að spretta í firðinum. Álverið fylgist með styrk flúors í lofti og reglubundin gróðursýni leiddu í ljós að of mikið flúor er í grasi í nágrenni versins, aðallega norðvestan við verksmiðjuna. Þar eru þrír bæir með umtalsverðan búskap. Kollaleira, Áreyjar og Slétta.

Sigurður Baldursson, bóndi á Sléttu, segir að mönnum bregði við að heyra svona fréttir miðað við það sem þeim hafi áður verið tjáð að þetta ætti að vera öruggt. Menn ættu ekki að þurfa að hafa neinar áhyggjur af þessu.

Hann bætir við að líklega muni flúormengun í skamman tíma eki hafa langtímaáhrif eins og hafi sannast eftir eldgos. Of mikið flúor í lengri tíma getur skemmt tennur og bein grasbíta og rannska þarf bæði búfé og hey og aðra uppskeru sem kom af túnum í sumar.

Geir S. Hlöðversson, framkvæmdastjóri umhverfismála hjá Alcoa, segir að menn taki alvarlega þeirri stöðu sem upp sé komin. Um sé að ræða bilun í búnaði, sem menn hafi ekki áttað sig á fyrr en fullseint, en þá brugðist strax við. Allt hafi verið setti í gang og ekkert til sparað til að bregðast við þessu á réttan hátt. Það fara í gang sérstakar rannsóknir sem snúi að grasi og heyi og eins fljótt og hægt sé. Niðurstöður þessara rannsókna muni leiða í ljós hvort eitthvað þurfi að gera og þá í framhaldinu hvað verði gert.