Meistararnir komust í undanúrslit

epa07561767 Golden State Warriors guard Stephen Curry (L) celebrates with teammate Klay Thompson (R) after his team defeated the Houston Rockets at the conclusion of the NBA Western Conference playoffs semifinal basketball game six between the Golden State Warriors and the Houston Rockets at the Toyota Center in Houston, Texas, USA, 10 May 2019.  EPA-EFE/LARRY W. SMITH SHUTTERSTOCK OUT
 Mynd: EPA-EFE - EPA

Meistararnir komust í undanúrslit

11.05.2019 - 05:23
Meistarar síðustu tveggja ára í NBA deildinni í körfubolta færðust í nótt skrefi nær þriðja titlinum í röð. Golden State Warriors lét ekki meiðsli lykilmannsins Kevin Durant á sig fá og gerði sér lítið fyrir með því að sigra Houston Rockets á útivelli með 118 stigum gegn 113.

Leikurinn var hnífjafn og spennandi og skiptust liðin á því að hafa forskot í leiknum. Jafnt var á með liðunum í hálfleik, þar sem hvort lið hafði skorað 57 stig. Flestir hefðu líklega búist við því að bakvarðaparið Stephen Curry og Klay Thompson myndu taka að sér stærra hlutverk í fjarveru Durant, en hvorki gekk né rak hjá Curry í fyrri hálfleik. Hann skoraði ekki stig fyrr en í þriðja leikhluta, en áður en yfir lauk var hann orðinn stigahæsti leikmaður gestanna með 33 stig. Hann blómstraði á mikilvægustu augnablikum leiksins, og fór að hitta úr þriggja stiga skotum sínum þegar skammt var til leiksloka. Klay Thompson skoraði 27 stig, og hitti úr 7 af 13 þriggja stiga skotum sínum. Bekkurinn kom sterkur inn í fyrri hálfleik þegar illa gekk hjá byrjunarliðinu og skilaði samanlagt 33 stigum.

Enn einu sinni situr Houston eftir með sárt ennið eftir viðureign við Golden State. James Harden stóð fyrir sínu með 35 stig og Chris Paul skoraði 27 stig og tók 11 fráköst.

Á morgun, sunnudag, ræðst hvort Golden State mætir Portland Trailblazers eða Denver Nuggets í úrslitum Vesturdeildarinnar. Sama kvöld eigast Philadelphia 76ers og Toronto Raptors við í oddaleik um sæti í undanúrslitum Austurdeildar þar sem Milwaukee Bucks bíður þeirra.