Meirihlutinn vill seinka klukkunni

Mynd með færslu
 Mynd:

Meirihlutinn vill seinka klukkunni

06.02.2014 - 12:11
58 prósent landsmanna eru hlynnt því að seinka klukkunni um eina klukkustund. Meirihluti er fyrir breytingunni í öllum aldurshópum og meðal stuðningsmanna flestra stjórnmálaflokka.

Capacent kannaði afstöðu landsmanna til þess hvort seinka bæri klukkunni um eina klukkustund, eins og lagt hefur verið til á Alþingi.

Talsverður stuðningur er við tillöguna því þrjátíu prósent svarenda eru því alfarið hlynnt, þrettán prósent mjög hlynnt og fimmtán prósent frekar hlynnt.

Samtals eru því 58 prósent þjóðarinnar hlynnt breytingu klukkunnar. Nítján prósent eru hvorki hlynnt né andvíg. Sex prósent eru frekar andvíg, þrjú prósent mjög andvíg og þrettán prósent alfarið andvíg. Samtals eru því 22 prósent andvíg breytingum.

Þetta er nokkur breyting frá því Capacent spurði sömu spurninga fyrir þremur árum. Þá voru fjörutíu prósent hlynnt breytingum en 39 prósent andvíg.

Konur eru hlynntari seinkun klukkunnar en karlar og yngra fólk er því hlynntara en eldra. Afgerandi stuðningur er við tillöguna meðal stuðningsmanna stjórnarandstöðuflokkanna en tæplega helmingur stuðningsmanna Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks styðja seinkun klukkunnar.

Andstaðan er mest meðal stuðningsmanna Sjálfstæðisflokksins, þar sem rúmur þriðjungur er andvígur tillögunni.
Könnunin var netkönnun, gerð dagana 23. janúar til 2. febrúar. 1400 voru í úrtakinu, svarhlutfallið var 61,3%. Spurt var: Þingsályktunartillaga hefur verið lögð fram á Alþingi um að klukkunni á Íslandi verði seinkað um eina klukkustund. Ert þú hlynnt(ur) því að tillagan verði samþykkt?