Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Meirihlutinn þurfti að taka stjórnina

08.02.2019 - 12:39
Mynd með færslu
 Mynd:
Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra er ánægður með þá niðurstöðu að Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, hafi tekið tímabundið við formennsku í umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis. Hann segir minnihlutann ekki hafa getað tekið á málinu og því mikilvægt að meirihlutinn hafi axlað þá ábyrgð að taka við stjórn í nefndinni. 

Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokks, vék sem formaður umhverfis- og samgöngunefndar en upplausn ríkti í nefndinni frá því að hann settist aftur á þing. Bergþór tók sér tímabundið leyfi eftir að klausturmálið kom upp. Hann segist hafa lagt sjálfur fram tillöguna um að Jón Gunnarsson tæki við formennsku.

Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra, er ánægður með niðurstöðuna. „Það var ljóst að nefndin var óstarfhæf. Og mikilvægt að meirihlutinn axli þá ábyrgð að sér stjórna nefndinni þangað til að mál hafa skýrst. Þannig að ég var ánægður með þá niðurstöðu.“ 

Vildu að Hanna Katrín tæki við

Fulltrúar stjórnarandstöðu í nefndinni, og Rósa Björk Brynjólfsdóttir þingmaður VG, hafa gagnrýnt að formannssætið sé nú komið til stjórnarflokkanna og lögðu til að Hanna Katrín Friðriksson, þingmaður Viðreisnar, tæki við formennsku. 

Þér fannst þetta besta niðurstaðan? Frekar en að ganga að þessum tillögum minnihlutans? 

„Minnihlutinn gat greinilega ekki tekið á málinu og þess vegna mikilvægt að meirihlutinn axlaði þá ábyrgð að taka stjórn á nefndinni. Hún gat ekki lengur verið óstjórnhæf.“