
Meirihlutinn heldur í borginni
Samfylkingin er stærsti flokkur borgarinnar og næði níu mönnum í borgarstjórn með 32,1 prósent atkvæða. Sjálfstæðisflokkurinn hlýtur 26,3 prósent í könnuninni sem tryggir honum sjö borgarfulltrúa. Píratar og Vinstri græn myndu fá tvo fulltrúa hvor, Píratar með 10,3 prósenta fylgi en VG með 7,5 prósent. Viðreisn er fimmti stærsti flokkurinn með 6,2 prósenta fylgi, Miðflokkurinn hlýtur 5,3 prósenta fylgi og Framsóknarflokkurinn 3,6 prósent, og dugar það öllum flokkum til að ná einum borgarfulltrúa inn hverjum. Næstu flokkar eru Flokkur fólksins með rúmlega þriggja prósenta fylgi og Sósíalistaflokkurinn með rúmlega tvö prósent. Vikmörk í könnuninni eru á bilinu 0,18 til 2,36 prósent, segir í Fréttablaðinu í morgun.
Könnunin var gerð þannig að hringt var í nærri tvö þúsund manns þar til náðist í 1.500, dagana 23. og 24. maí. 62,1 prósent þeirra sem náðist í tóku afstöðu til spurningarinnar, tíu prósent sögðust ekki ætla að kjósa eða skila auðu, 18,4 prósent sögðust óákveðin og 9,6 prósent vildu ekki svara spurningunni.