Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Meirihlutinn féll í Vestmannaeyjum

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Sjálfstæðisflokkinn vantaði sex atkvæði til að halda meirihluta sínum í Vestmannaeyjum. Flokkurinn fékk þrjá menn kjörna og tapaði tveimur. H-listinn Fyrir Heimaey fékk líka þrjá menn kjörna og Eyjalistinn einn.

Sjálfstæðisflokkurinn fékk 45,4% atkvæða, tapaði 27,7% og hefur ekki fengið minna fylgi í Eyjum síðan 1986. Fyrir Heimaey sem er klofningsframboð úr Sjálfstæðisflokknum fékk 34,2% og Eyjalistinn fékk 20,4%. 

Hildur Sólveig Sigurðardóttir, Helga Kristín Kolbeins og Trausti Hjaltason náðu kjöri fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Fyrir Heimaey koma Íris Róbertsdóttir, Jóna Sigríður Guðmundsdóttir og Elís Jónsson inn í bæjarstjórn og Njáll Ragnarsson fyrir Eyjalistann. Eyþór Harðarson fjórða mann á D-lista vantaði sex atkvæði til að fella Elís Jónsson á H-listanum. 

Kjörsókn var 83,12% og greiddu 2.630 atkvæði. Á kjörskrá voru 3.164. 

H-listinn fagnaði niðurstöðunni með flugeldum sem ekki sáust ýkja vel vegna þoku.

 

Mynd: RÚV / RÚV
Björn Friðrik Brynjólfsson
Fréttastofa RÚV