Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Meirihluti vill halda áfram viðræðum

Mynd með færslu
 Mynd:
Meirihluti þjóðarinnar vill ljúka aðildarviðræðum við Evrópusabandið samkvæmt nýrri könnun Félagsvísindastofnunar. Þrátt fyrir þetta er meirihluti landsmanna á móti aðild að ESB. Þetta kemur fram í nýrri könnun Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands.

Samkvæmt könnun Félagsvísindastofnunar er andstaðan við inngöngu í ESB nokkuð afgerandi á þessum tímapunkti. Rúmur fjórðugur þeirra sem tók afstöðu var mjög (11,4)  eða frekar (16,2) fylgjandi inngöngu í sambandið. Tuttugu prósent  sögðust hlutlaus en rúmur helmingur sagðist frekar (20,5) eða mjög (31,7) mótfallinn inngöngu. 

Þrátt fyrir þetta er meirihluti fyrir því að aðildarviðræðum við sambandið verði fram haldið. 52,7 prósent svarenda í könnuninni vill halda áfram viðræðum. 30,7 vilja hætta. 16,5 prósent taka ekki afstöðu. Þetta þýðir að hluti þeirra sem eru andvígir aðild vilja samt klára aðildarviðræðurnar. Raunar vilja einungis 64 prósent þeirra sem eru mótfallnir ESB aðild hætta viðræðum. Aðrir vilja halda áfram eða taka ekki afstöðu.

Það getur verið áhugavert að skoða afstöðu til aðildarviðræðna í samhengi við stjórnmálaflokka. Þriðjungur kjósenda Sjálfstæðisflokks styður áframhaldandi viðræður, tuttugu prósent taka ekki afstöðu og tæpur helmingur vill hætta viðræðum.

Tæp 44 prósent framsóknarmanna vilja halda áfram viðræðum, fimmtán prósent taka ekki afstöðu en fjörutíu prósent vilja hætta. Það kemur svo lítið á óvart að yfir níutíu prósent kjósenda Samfylkingarinnar vilja halda áfram viðræðum. Mikill meirihluti kjósanda VG, Bjartrar framtíðar og Lýðræðisvaktarinnar taka í sama streng. Minnst er fylgið við áframhaldandi viðræður hjá Hægri grænum.

Rúnar Vilhjálmsson, prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands, segir  skýringuna á því að hluti andstæðinga Evrópusambandsaðildar vilji klára aðildarviðræðurnar vera mögulega þá að menn vilji ljúka langdregnu máli sem hafi kostað tíma og fjármuni. „Menn gætu líka talið að það væri eina leiðin að ljúka málinu að þjóðin fengi að greiða atkvæði um samning. Margir þeirra væru nokkuð öruggir í sinni sök sjálfsagt um það að þjóðin myndi hafna samningnum að minnsta kosti ef gengið yrði til atkvæða á næstu misserum og líta svoleiðis á að það sé farsælasta ferlið í málinu.“ 

Um framkvæmd könnunarinnar: Tekið var 1.796 manna tilviljunarúrtak úr netpanel Félagsvísindastofnunar. Úrtakið var lagskipt eftir kyni og aldri til þess að það endurspegli sem best samsetningu kyns og aldurs meðal landsmanna, 18 ára og eldri. Þátttakendur fengu tengil á könnunina sendan í tölvupósti og svöruðu henni rafrænt. Gagnaöflun hófst 18. mars 2013 og lauk 4. apríl 2013. Alls svöruðu 1330 og er svarhlutfall því 74%.