Meirihluti telur nýja stjórnarskrá mikilvæga

28.09.2017 - 14:07
Þingsetning 6. desember 2016.
 Mynd: Eggert Þór Jónsson - RÚV
Rúmlega helmingur landsmanna telur mikilvægt að Íslendingar fái nýja stjórnarskrá á næsta kjörtímabili en tæpur fjórðungur telur lítilvægt að ný stjórnarskrá verði að veruleika. Þetta er niðurstaða skoðanakönnunar MMR sem birt var í dag.

Mikill munur er á afstöðu fólks eftir búsetu, tekjum og stjórnmálaskoðunum, samkvæmt könnuninni.

Rúmlega 90 prósent stuðningsmanna Samfylkingarinnar og Pírata telja mikilvægt að ný stjórnarskrá verði samþykkt á næsta kjörtímabili. Aðeins fimmtán prósent Sjálfstæðsimanna eru þeirrar skoðunar. Nær helmingur Sjálfstæðismanna og rúmlega þriðjungur Framsóknarmanna telur lítilvægt að ný stjórnarskrá verði samþykkt.

Krafan um nýja stjórnarskrá fer minnkandi í takt við hækkandi tekjur og íbúar á höfuðborgarsvæðinu telja mikilvægara en fólk á landsbyggðinni að ný stjórnarskrá taki gildi.
 

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi