Athugið þessi frétt er meira en 10 ára gömul.

Meirihluti sagði já við öllum spurningum

21.10.2012 - 12:46
Mynd með færslu
 Mynd:
Svo virðist sem tveir þriðju hlutar kjósenda, eða 66,3 prósent þeirra sem taka afstöðu í þjóðaratkvæðagreiðslunni í gær, hafi samþykkt að tillögur stjórnlagaráðs verði lagðar til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá. Meirihluti kjósenda sagði já við öllum spurningunum á kjörseðlinum.

Þeir sem taka afstöðu vilja því fara eftir tillögum stjórnlagaráðs í öllum atriðum nema þegar kemur að þjóðkirkjunni. En meirihluti er fyrir því að ákvæði um þjóðkirkjuna verði áfram í stjórnarskrá.

Talningu atkvæða er lokið í öllum kjördæmum nema í Reykjavíkurkjördæmi norður, þar sem talning hefst á ný klukkan eitt. Kjörsókn á landinu öllu er 48,9 prósent. Mest var kjörsóknin í Reykjavíkurkjördæmi suður og í Suðvesturkjördæmi en fæstir mættu á kjörstað í Suðurkjördæmi, 43,2 prósent. Þetta er heldur meiri kjörsókn en í kosningunum til stjórnlagaráðs þegar 36,7 prósent kosningabærra manna mættu á kjörstað - en talsvert minni en í síðustu þjóðaratkvæðagreiðslu, þegar kosið var um Icesave. Þá mættu rúm 75 prósent á kjörstað.

Talin hafa verið 107.570 atkvæði um fyrstu spurninguna þar sem spurt var hvort fólk vildi að tillögur stjórnlagaráðs yrðu lagðar til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá. 66,3 prósent þeirra sem taka afstöðu segja já en 33,7 prósent nei.

Í spurningu tvö var spurt hvort fólk vildi að náttúruauðlyndir sem ekki eru í einkaeign verði lýstar þjóðareign í nýrri stjórnarskrá. Mikill meirihluti þeirra sem taka afstöðu, eða 82,5 prósent svara þeirri spurningu játandi en 17,5 prósent segja nei.

Í þriðju spurningunni var fólk innt eftir því hvort það vildi hafa ákvæði um þjóðkirkju á Íslandi í stjórnarskrá. 57,5 prósent segja já við því en 42,5 prósent vilja ekki hafa ákvæði um þjóðkirkju í stjórnarskrá. Þetta er eina spurningin þar sem niðurstaðan er andstæð tillögum stjórnlagaráðs.

Í fjórðu spurningunni var spurt hvort í nýrri stjórnarskrá ætti að heimila persónukjör í kosningum til Alþingis í meira mæli en nú er. Rúmlega þrír fjórðu þeirra sem taka afstöðu, eða 77,9 prósent segja já við því en 22,1 prósent segir nei.

Færri atkvæði liggja á bak við tölur um spurningar fimm og sex, þar sem þau atkvæði hafa ekki verið talin í Reykjavíkurkjördæmi norður.

Í fimmtu spurningunni var spurt hvort fólk vildi að í nýrri stjórnarskrá væri ákvæði um að atkvæði kjósenda, alls staðar að af landinu vegi jafnt. 63,2 prósent segja já við því en 36,8 prósent nei. Þarna er mikill munur milli kjördæma og til að mynda svöruðu 69,5 prósent kjósenda í Norðausturkjördæmi, þessari spurningu neitandi.

Sjötta spurningin fjallar um hvort tiltekið hlutfall atkvæðabærra manna geti krafist þess að mál fari í þjóðaratkvæðagreiðslu. 72,2 prósent kjósenda eru því hlynnt en 27,8 prósent andvíg.

 Nánari upplýsingar um atkvæðagreiðsluna, prósentur og fjölda ógildra og auðra atkvæða, má nálgast á vef okkar ruv.is og þær tölur verða uppfærðar um leið og nýjar tölur berast.

Kjörsókn á landinu öllu er 49,8 prósent en ennþá vantar tölur um kjörsókn frá Suðurkjördæmi. Nánar má kynna sér niðurstöður atkvæðagreiðslunnar á vefnum ruv.is.