
Andrés Ingi Jónsson þingmaður Vinstri grænna er fyrsti flutningsmaður frumvarpsins og með honum eru 13 flutningsmenn úr öllum flokkum. Í meirihluta stjórnskipunarnefndar eru þingmenn meirihluta og minnihluta svo að segja má að heilmikil sátt ríki um málið. Þó er vitað að einhverjir þingmenn eru því andvígir. Kolbeinn Óttarsson Proppé er framsögumaður meirihlutans og hann telur næstu skref verða að lækka kosningarétt til þingkosninga.
„Við teljum að þetta sé mikilvægt skref í þá átt að auka lýðræðisþátttöku ungs fólks. Þetta er alþjóðleg þróun, hefur komið frá Evrópu og þar hefur verið hvatt til þess að þetta verði gert. Það er áhyggjuefni að lýðræðisþátttaka í yngsta aldurshópnum er ekki næg og svo treystum við þessum aldurshópi bara mjög vel til að taka afstöðu í kosningum eins og við hin gerum sem eldri erum,“ segir Kolbeinn.
Er næsta skref að lækka kosningaaldur til alþingiskosninga?
„Já, það finnst mér. Það er auðveldara að gera þetta í sveitarstjórnarkosningum vegna þess að það eru bara einföld lög sem gilda um þær en það þarf að huga að stjórnarskránni þegar kemur að alþingiskosningum.“