Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Meirihluti íbúða leigður án leyfis

05.03.2015 - 19:11
Hlíðahverfi í Reykjavík með Esjuna í bakgrunni.
 Mynd: Þórgunnur Oddsdóttir
Næstum 1.100 íbúðir og herbergi bjóðast ferðamönnum í Reykjavík til leigu í gegnum vefsíðuna Airbnb. Hátt í 60% íbúða og herbergja sem eru leigð ferðamönnum í Reykjavík í gegnum vefinn eru leigð út án starfsleyfis.

Með síauknum straumi ferðamanna til landsins á síðustu árum hefur umsóknum um leyfi til að bjóða upp á heimagistingu eða leigja ferðamönnum íbúðir snarfjölgað. Árið 2009 voru gefin út 14 slík leyfi í Reykjavík en í fyrra voru þau hátt í sjötíu.

Nú eru samtals 238 starfsleyfi í gildi í Reykjavík. Í meirihluta tilvika eru boðnar til leigu íbúðir en þó eru rúm 40% starfsleyfanna gefin út fyrir herbergi í heimahúsum. Sumir leigja út margar íbúðir. En því fer fjarri að þetta segi alla söguna, því á vefsíðunni Airbnb, þar sem fólk getur sjálft auglýst gistingu, eru miklu fleiri íbúðir og herbergi í boði en leyfi er fyrir.

Rúmlega 70% af starfsleyfunum voru gefin út í miðbænum og má ætla að þar sé líka meirihluti þeirra íbúða og herbergja sem eru leigð út án leyfis.

Alls eru hátt í 800 íbúðir í Reykjavík til leigu á Airbnb, samkvæmt nýlegri samantekt heilbrigðiseftirlitsins. Við það bætast hátt í 300 herbergi í heimagistingu. Allt í allt, yfir 1000 gistimöguleikar á Airbnb. Þar af eru yfir 600 eða tæp 60% án leyfis.

En hvað veldur? Umsóknarferlið um leyfi er nokkuð flókið og tekur allt að 45 daga að komast í gegnum pappírsvinnuna. Leyfið kostar um 80 þúsund krónur og við það bætist að fasteignagjöld rúmlega áttfaldast. Ríkisskattstjóri hefur á undanförnum misserum eflt eftirlit með þessari starfsmeni og útleiga hefur verið stöðvuð á nokkrum tugum heimila.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV