Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Meirihluti gæti haldið en margir óákveðnir

Mynd með færslu
 Mynd: RUV
Meirihlutasamstarf Sjálfstæðisflokksins í Kópavogi með Bjartri framtíð gæti haldið áfram eftir kosningar, þrátt fyrir að fylgi sameiginlegs framboðs Bjartar framtíðar og Viðreisnar sé innan við helmingur af því sem fyrrnefndi flokkurinn fékk í síðustu kosningum. Þetta eru niðurstöður skoðanakönnunar Fréttablaðsins um fylgi flokka í Kópavogi, en einungis um helmingur þeirra sem náðist í tók afstöðu til spurningarinnar um hvaða flokk þeir hygðust kjósa í sveitarstjórnarkosningunum 26. maí.

Samkvæmt þessum niðurstöðum fengi Sjálfstæðisflokkurinn 36.4 prósent atkvæða nú, í stað 39,3 prósenta árið 2014. Þetta tryggir flokknum óbreyttan fjölda bæjarfulltrúa, eða fimm af ellefu. Sameiginlegt framboð Bjartrar framtíðar og Viðreisnar nýtur samkvæmt þessari könnun stuðnings ríflega sjö prósenta kjósenda, sem tryggir þeim einn bæjarfulltrúa. Björt framtíð á tvo fulltrúa í sitjandi bæjarstjórn, en flokkurinn fékk 15,2 prósent atkvæða í síðustu kosningum.

Í samtali við Fréttablaðið segjast fulltrúar beggja framboða, þau Ármann Kr. Ólafsson og Theódóra Þorsteinsdóttir, viljug til að halda meirihlutasamstarfinu áfram, þrátt fyrir naumari meirihluta.

Samfylking bætir við sig

Samfylkingin mælist næst stærsti flokkurinn nú, rétt eins og í kosningunum 2014, og hefur bætt við sig nokkru fylgi. 20 prósent kjósenda í Kópavogi segjast ætla að kjósa flokkinn nú, en 16.1 prósent Kópavogsbúa kusu hann síðast. Þetta dugar þó ekki til að fjölga fulltrúum flokksins í bæjarstjórn, þeir verða áfram tveir ef úrslitin verða í samræmi við þessa könnun.

Framsóknarflokkurinn er í þriðja sæti með 8,4 prósent og einn fulltrúa, þá koma Píratar með 7,5 prósent og einn mann, á eftir Bjartri framtíð kemur svo Vinstri hreyfingin grænt framboð með 6,7 prósent atkvæða og einn bæjarfulltrúa.

Miðflokkurinn mælist með rúmlega fimm prósenta fylgi í Kópavogi, sem dugar ekki til að koma manni í bæjarstjórn, ekki frekar en 4,7 prósentin sem fylgja framboðinu Fyrir Kópavog að málum. Loks segjast ríflega tvö prósent ætla að kjósa Sósíalistaflokkinn.

Könnunin var gerð í gær, 15. maí. Var hringt í 1.087 manns með lögheimili í Kópavogi, uns náðst hafði í 801. Aðseins 51 prósent þeirra sem í náðist tók afstöðu til spurningarinnar. 12 prósent sögðust ekki ætla a ðkjósa, 22,1 prósent voru óákveðin og 14,9 prósent neituðu að svara. 
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV