Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Meirihluti á móti áfengisfrumvarpi

14.02.2017 - 17:36
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink - Ruv.is
Meirihluti Íslendinga er mótfallinn nýju áfengisfrumvarpi um að heimilt verði að selja áfengi í verslunum frá og með næstu áramótum. Þetta eru niðurstöður könnunar sem Zenter rannsóknir gerðu á afstöðu til frumvarpsins.

61,5 prósent þátttakenda sögðust vera á móti frumvarpinu, tæp 23 prósent sögðust vera hlynnt því og tæp 16 prósent sögðust hvorki hlynnt því né mótfallin. Kjarninn birti fyrst niðurstöður könnunarinnar. 

Yngra fólk reyndist almennt hlynntara frumvarpinu en það eldra. Yngsti aldurshópurinn var áberandi hlynntastur frumvarpinu. Tæpt 41 prósent fólks á aldrinum 18 til 24 ára sagðist vera hlynnt frumvarpinu, rúm 35 prósent þátttakenda í þessum aldurshópi sögðust mótfallin frumvarpinu og tæp 24 prósent sögðust hvorki hlynnt því né mótfallin. 

Í elsta aldurshópnum, 65 ára og eldri, var andstaðan mest. Þar sögðust rúm 82 prósent vera andvíg frumvarpinu en tæp ellefu prósent voru hlynnt því. 

Könnunin var gerð á netinu í könnunarhópi Zenter rannsókna. Svarfjöldi var 1.023 manns og var svarhlutfall 58 prósent. 

 

Mynd með færslu
 Mynd: Zenter
Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV