Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Meirihlutaviðræður á lokametrunum

Mynd með færslu
 Mynd:
Málefnasamningar nýrra meirihluta á Akureyri, Hafnarfirði og Reykjavík eru á lokametrunum. Allt gott en lítið er að frétta af meirihlutaviðræðum í Reykjavík að sögn Dags B. Eggertssonar leiðtoga Samfylkingarinnar í borginni.

Á Akureyri mynda þrír flokkar nýjan meirihluta, Framsóknarflokkurinn, L-listinn og Samfylking. Matthías Rögnvaldsson, oddviti L-listans segir að skrifað verði undir meirihlutasamning á morgun og hann kynntur. Matthías segir samningaviðræður hafa gengið vel og að flokkarnir þrír hafi verið á svipaðri línu þegar kemur að áherslumálum á næsta kjörtímabili.

Dagur B. Eggertsson forystumaður Samfylkingarinnar í Reykjavík, sem fékk fimm menn af 15 kjörna í borgarstjórn í kosningunum, segir að allt gott en lítið nýtt sé að frétta af meirihlutaviðræðum. Fjórir flokkar hyggjast stjórna í sameiningu; Samfylkingin, Björt Framtíð, Píratar og Vinstri græn. Dagur býst við því að málið skýrist um miðja vikuna og vonast til þess að málefnasamningur verði tilbúinn á fimmtudag.

Í fréttum RÚV í gærkvöldi kom fram að Sjálfstæðisflokkur og Björt framtíð ætli í meirihlutasamstarf í Hafnarfirði, þar sem meirihluti Samfylkingar og Vinstri grænna féll. Rósa Guðbjartasdóttir, oddviti Sjálfstæðismanna, vonast til þess að málefnasamningur flokkanna verði kynntur á morgun.