Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Meirihlutar falla unnvörpum fyrir austan

Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Stærstu tíðindin á Austurlandi í sveitarstjórnarkosningunum í gær eru þau að meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknar í Fjarðabyggð féll á einu atkvæði að því er virðist, Seyðisfjarðarlistinn náði hreinum meirihluta á Seyðisfirði og Framsóknarflokkur felldi meirihluta Sjálfstæðisflokks og 3. framboðsins og náði hreinum meirihluta á Hornafirði.

Talið aftur í Fjarðabyggð

Í Fjarðabyggð vann Fjarðalistinn sigur, náði fjórum mönnum og getur myndað meirihluta með hvaða flokki sem honum þóknast. Miðflokkur náði einum manni í Fjarðabyggð og er þeirri stöðu að geta myndað meirihluta með Framsókn og Sjálfstæðisflokknum. Sjálfstæðismenn í Fjarðabyggð töpuðu nánast þriðjungi af sínu fylgi og einum manni og Framsókn og óháðir töpuðu líka manni. Athygli vekur að Miðflokkurinn fær atkvæði frá sjötta hverjum kjósanda í Fjarðabyggð. Miðflokkurinn hlaut 16,8%, Framsókn og óháðir 23,6% og Sjálfstæðisflokkur 25,5%  og Fjarðalistinn 34%.

Yfirkjörstjórn í Fjarðabyggð hefur gefið út yfirlýsingu um að atkvæða verði mögulega talin aftur vegna þess hve mjótt er á munum. Yfirkjörstjórn kemur saman í fyrramálið og tekur ákvörðun um framhaldið. Allir kjörseðlarnir hafa verið innsiglaðir í kjörkössum og bíða til morguns.

Seyðisfjarðarlistinn með hreinan meirihluta

Á Seyðisfirði féll meirihluti Framsóknar og Sjálfstæðismanna. Seyðisfjarðarlistinn hlaut 53% atkvæða náði einum manni af framsókn og öðrum af sjálfstæðismönnum, fékk fjóra menn og þar með hreinan meirihluta. Sjálfstæðismenn fengu tvo menn og Framsókn einn. Eitt af stefnumálum Seyðisfjarðarlistans er að auglýsa eftir bæjarstjóra og því er líklegt að Vilhjálmur Jónsson, efsti maður á lista Framsóknar, víki úr stóli bæjarstjóra.

Framsókn aftur til valda á Höfn

Á Hornafirði náði Framsókn manni af 3. Framboðinu og þar með meirihluta í bæjarstjórn. Ljóst er að Björn Ingi Jónsson, bæjarstjóri og oddviti Sjálfstæðismanna, mun víkja úr starfi en óvíst er að Ásgerður K. Gylfadóttir, oddviti framsóknar, setjist aftur í stól bæjarstjóra sem hún sat í á seinni hluta þar síðasta kjörtímabils. Eitt af stefnumálum Framsóknar á Hornafirði var að auglýsa eftir bæjarstjóra. Framsókn hlaut tæp 56% og bætti við sig tæpum 18%, Sjálfstæðisflokkur fækk tæp 30% og missti 7,5% og 3. Framboðið fékk  tæp 15% og tapaði rúmum 10%.

Allt getur gerst á Fljótsdalshéraði

Á Fljótsdalshéraði er talsverð óvissa eftir kosningarnar og ýmsir möguleikar á myndun meirihluta.  Á-listinn fékk tvo menn síðast en bauð ekki fram núna. Sjálfstæðisflokkur og Héraðslisti bættu við sig manni og fengu þrjá hvor. Miðflokkurinn náði einum manni inn en Framsókn tapaði manni og fékk tvo. Héraðslistinn fékk flest atkvæði eða 30,8%, Sjálfstæðisflokkur og óháðir 26,68%, Framsókn fékk 25,55% en Miðflokkur 17%. Margir möguleikar eru sem áður segir á myndun meirihluta á Fljótsdalshéraði. Hvaða flokkur sem er gæti lent í minnihluta.

 

 

runarsr's picture
Rúnar Snær Reynisson
Fréttastofa RÚV