Athugið þessi frétt er meira en 11 ára gömul.

Meiri virkni nú en í upphafi goss

02.05.2010 - 15:58
Mynd með færslu
 Mynd:
Talsvert öskufall var í Vík í Mýrdal í dag og miklar drunur heyrðust þar frá Eyjafjallajökli í nótt og í morgun. Óróamælingar Veðurstofunnar sýna nú mun meiri virkni en í upphafi goss en sérfræðingar kunna engar skýringar á því.

Gosvirkni í Eyjafjallajökli virðist hafa verið að aukast í dag og í gær samkvæmt mælingum Veðurstofu Íslands. Á óróalínuriti má sjá að óróinn hefur aukist töluvert. Myndarlegur gosmökkur stígur upp frá jöklinum og gufumökkurinn er síst minni. Magnús Tumi Guðmundsson jarðeðlisfræðingur segir óróann sem Veðurstofan mælir kannski ekki góðan mælikvarða í þetta gos þar sem hann var til dæmis minnstur þegar gosið stóð sem hæst. Hann kann engar skýringar á því hvers vegna óróinn er að aukast. Gosið sé þó meira núna en það var í vikunni leið, mökkurinn rísi hærra og öskufall sé meira.

Grétar Einarsson bóndi og björgunarsveitarmaður í Mýrdal segir talsvert öskufall hafa verið í kringum hádegi og að drunurnar í nótt og í morgun hafi síst verið minni en í upphafi goss.