Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Meiri verðhækkun í stærri bæjum úti á landi

13.02.2019 - 09:45
Mynd með færslu
 Mynd: Einar Rafnsson - RUV
Fasteignaverð hækkaði umtalsvert meira í stóru bæjunum fjórum utan höfuðborgarsvæðisins en á höfuðborgarsvæðinu milli áranna 2017 og 2018 samkvæmt nýrri Hagsjá Landsbankans. Bæjirnir fjórir sem um ræðir eru Akureyri, Árborg, Akranes og Reykjanesbær. Fasteignaverð hækkaði mest á Akranesi eða um tæp tuttugu prósent. Í öllum fjórum bæjunum var hækkunin yfir tíu prósent á meðan hún var undir fjögur prósent á höfuðborgarsvæðinu.

Í Hagsjánni er litið á tölur úr verðsjá Þjóðskrár Íslands um þróun fasteignaverðs og miðað er við vegið meðaltal viðskipta með fjölbýli og sérbýli  í þessum bæjum. Sama aðferð er notuð við höfuðborgarsvæðið.

Fasteignaverð á Akureyri hækkaði um 13,9 prósent á tímabilinu, fasteignaverð í Árborg hækkaði um 15,1 prósent, fasteignaverð á Akranesi hækkaði um 19,2 prósent og fasteignaverð í Reykjanesbæ hækkaði um 10,6 prósent. Á meðan hækkaði fasteignaverð á höfuðborgarsvæðinu um 3,7 prósent.

Talsvert hægði á verðhækkun á höfuðborgarsvæðinu frá árinu 2017 á meðan að minna hægði á hækkunum í bæjunum fjórum. Þá kemur fram að þrátt fyrir miklar hækkanir utan höfuðborgarsvæðisins er fermetraverð þar enn mun hærra en í bæjunum fjórum. Á fjórða ársfjórðungi í fyrra var meðalfermetraverð fjölbýlis og sérbýlis miðað við viðskipti um 454 þúsund krónur á höfuðborgarsvæðinu en um 294 þúsund í Árborg þar sem það var lægst af þessum bæjum. 

Ef fermetraverðið er sett á vísitöluform miðað við 100 á höfuðborgarsvæðinu má sjá að verðið á Akureyri er um þrír fjórðu hlutar af verðinu á höfuðborgarsvæðinu. Verðin í hinum bæjunum er þá á bilinu 65 til 70 prósent af verðinu á höfuðborgarsvæðinu.

Hér má lesa Hagsjánna í heild sinni.

ingvarthor's picture
Ingvar Þór Björnsson
Fréttastofa RÚV