Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Meira öryggi með tilkomu Vaðlaheiðarganga

Mynd með færslu
 Mynd: Bjarni Rúnarsson - RÚV
Meira samstarf viðbragðshópa og tilkoma Vaðlaheiðarganga hefur bætt þjónustu og öryggi fólks austan ganganna, segir slökkviliðsstjórinn á Akureyri. Hann segir að göngin skipti miklu fyrir störf þeirra, ekki síður á sumrin en veturna.

Með tilkomu Vaðlaheiðarganga stækkaði starfssvæði slökkviliðs Akureyrar. Áður sá slökkviliðið um sjúkraflutninga í Fnjóskadal og að Ljósavatni. Nú er slökkviliðið sent í útköll austur að Laugum, í Bárðardal og efri hluta Köldukinnar. Ólafur Stefánsson slökkviliðsstjóri á Akureyri segir þessar breytingar hafa verið í umræðunni í þónokkurn tíma enda vitað að göngin væru væntanleg. Samráðshópur um sjúkraflutninga á svæði Heilbrigðisstofnunar Norðurlands var stofnaður fyrir tveimur árum og voru breytingarnar vegna Vaðlaheiðarganga eitt af því sem hópurinn fór yfir.  

Aukið samstarf til bóta fyrir alla

Hann segir samstarf við sjúkraflutningalið hjá Heilbrigðisstofnun Norðurlands í Þingeyjarsýslum hafa aukist undanfarið „Bæði vegna tilkomu ganganna og kannski bara hafa menn verið að opna augun fyrir því að samstarfið er til bóta fyrir alla,“ segir Ólafur. Sé útkall með miklum forgangi á svæði þar sem útkallstímar skarast séu bílar frá bæði Húsavík og Akureyri sendir á vettvang. „Þetta náttúrulega eykur þjónustuna og öryggið og vonandi hefur þetta þau áhrif að fleiri vilja búa á strjálbýlum svæðum,“ segir hann.

Göngin skipti miklu máli allt árið um kring

Ólafur segir að göngin skipti miklu máli fyrir störf slökkviliðsins og ekki einungis á veturna. Á sumrin séu útköll í Vaglaskóg til dæmis algeng og þá skipti gríðarlegu máli að hafa göngin og vera snögg á staðinn. „Allt í einu er viðbragðstíminn kominn niður í rétt rúmar 10 mínútur í staðinn fyrir tæpan hálftíma,“ segir Ólafur. Á þessu fyrsta ári ganganna hafi þegar verið farið í nokkur útköll í Fnjóskadal, bæði vegna bílslysa og bráðaveikinda og þá hafi munað miklu um göngin.

Aukið samstarf slökkviliða

Þá hefur samstarf við Brunavarnir Skútustaðahrepps og Þingeyjarsveitar verið aukið mikið og hafa útkallskerfin verið tengd saman. Búið er að þjálfa 16 manna hóp vettvangsliða sem sinnir líka sjúkraflutningum á svæðinu. Hópurinn er á útkallslista og kallaður út ef alvarleg veikindi eða slys í Skútustaðahreppi eða Þingeyjarsveit ber að. Ólafur segir að sé einhver þeirra í grenndinni geti sá farið á vettvang og hafið fyrstu hjálp áður en sjúkrabíll kemur. Hann segir að vettvangsliðarnir sinni svæðum þar sem ógerningur sé að halda úti sjúkrabíl vegna fárra útkalla og/eða kostnaðar. Miklu máli skipti að fá sérhæfða aðstoð sem fyrst á staðinn en það skipti líka máli að fá einhvern á staðinn sem hafi hlotið þjálfun og geti hafið fyrstu hjálp, hvort sem það sé hjartahnoð, að stöðva blæðingu eða koma fólki í skjól.