Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Meira en helmingur nær vart endum saman

25.03.2015 - 22:03
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink RÚV - RÚV Anton Brink
Meirihluti íslenskra heimila safnar skuldum eða nær endum saman með naumindum samkvæmt Þjóðarpúlsi Gallups. Fjárhagur heimila er aðeins skárri nú en fyrir þremur árum.

Einn af hverjum tíu sagðist safna skuldum. 11 af hundraði sögðust nota sparifé til að ná endum saman og 36 af hundraði sögðust ná endum saman með naumindum. Það eru því samtals 57 af hundraði á í erfiðleikum með fjárhaginn. 

35 af hundraði geta safnað svolitlu sparifé og sjö af hundraði sögðust geta safnað talsverðu sparifé.

Fleiri áttu í erfiðleikum fyrir þremur árum en í síðasta mánuði samkvæmt Þjóðarpúlsinum og enn fleiri í desember og júlí 2010, en í nóvember 2009 var ástandið svipað og fyrir þremur árum. Ekki var marktækur munur eftir kynjum.

Sá aldurshópur sem helst getur safnað sparifé er fólk á aldrinum 18 til 29 ára. 67 prósent þeirra getur safnað sparifé. Þetta fólk má þó búast við breytingum til hins verra þegar það kemst á fertugsaldur.

Fólk á fertugsaldri á nefnilega langerfiðast allra aldurshópa við að ná endum saman. Aðeins 31 prósent þeirra getur safnað sparifé, 47 prósent á erfitt með að ná endum saman og 22 prósent safnar skuldum eða gengur á sparifé sitt.

Þeir sem myndu kjósa Bjarta framtíð eða Sjálfstæðisflokkinn ef kosið yrði til Alþingis í dag eru ólíklegri til að safna skuldum og líklegri til að ná að safna sparifé en þeir sem kysu aðra flokka. Stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar eru líklegri til að safna sparifé en hinir.

Fátækar fjölskyldur eru margar ef marka má þjóðarpúlsinn. Fjórir af hverjum tíu sögðu einhvern í nánustu fjölskyldu sinni búa við fátækt. Og það er meira en í fyrri þjóðarpúlsum. Árið 2007 var aðeins tæpur fjórðungur sem taldi einhvern í nánustu fjölskyldu sinni búa við fátækt. Hlutfallið var komið í 35 prósent árið 2011, í 37 prósent árið 2012 og 40 prósent í síðasta mánuði.

 

Þórdís Arnljótsdóttir
Fréttastofa RÚV