Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Meira en ársbið eftir einhverfugreiningu

19.12.2015 - 18:54
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink - Ruv.is
Einhverft barn getur þurft að bíða í meira en ár eftir greiningu og þar með aðstoð í skólakerfinu. Forstöðumaður Þroska- og hegðunarstöðvar segir skammarlegt að geðheilbrigðisþjónusta við börn sé ekki betri. Bæði vanti fólk og fjármagn til að stytta biðlista.

Það hrannast upp biðlistar eftir greiningum hjá Þroska- og hegðunarstöð heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Í ár hafa borist yfir fimm hundruð tilvísanir sem eru fimmtíu fleiri en í fyrra. Af þessum eru 140 vegna gruns um einhverfu sem eru meira en þrefalt fleiri tilvik en í fyrra.

„Þau börn sem bíða styst eru kannski að bíða 5-8 mánuði og þau sem bíða lengst eru kannski að bíða 12-14 mánuði,“ segir Gyða Haraldsdóttir, forstöðumaður Þroska- og hegðunarstöðvar.

Svo einhverft barn fái viðeigandi aðstoð í skóla þarf það að hafa greiningu um slíkt frá Greiningar- og ráðgjafastöð ríkisins, Barna- og unglingageðdeild eða Þroska- og hegðunarstöð. „Við höfum bara alltof fátt starfsfólk,“ segir Gyða. Þá hefi ekki hafi fengist aukið fjármagn í samræmi við mikla fjölgun mála.

„Þetta er náttúrulega mjög alvarlegt mál,“ segir Sigrún Birgisdóttir, framkvæmdastjóri Einhverfusamtakanna. „Við vitum að þessi börn rekast illa í skóla ef þau fá ekki rétta þjónustu. Þau verða fyrir einelti og útskúfun. Þeim er ekki að ganga eins vel í námi og hægt væri ef þau fengju stuðning við hæfi,“ segir Sigrún og bætir við að biðin eftir greiningu geti verið foreldrum þungbær. „Það er ansi erfitt að vera með lítið barn og bíða mánuðum saman eftir niðurstöðu um hvað er að, hvers vegna er barnið ekki að þroskast eins og jafnaldrar. Þetta er mjög niðurdrepandi og erfitt,“ segir Sigrún. Þá bendir hún á að með því að börnin greinist seint dragi það úr möguleikum til þroska.

Gyða tekur undir það að biðin sé bagaleg. „Mér finnst það bara alveg rosalegt og mér finnst það í rauninni til skammar fyrir ríkt land eins og Ísland að geðheilbrigðisþjónustu við börn sé ekki betur hagað heldur en nú er,“ segir Gyða.

Sigrún er ekki bjartsýn: „Við höfum ekki séð stöðuna skána á nokkurn hátt, hún versnar ef eitthvað er.“