Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Meintur morðingi Kim Jong-Nams látinn laus

11.03.2019 - 05:49
Mynd með færslu
 Mynd:
Indónesísk kona sem ákærð var fyrir morðið á hálfbróður Kim Jong-Uns fyrir tveimur árum, var látin laus í morgun og allar ákærur á hendur henni felldar niður. AFP-fréttastofan greinir frá þessu. Önnur kona, víetnömsk, sem ákærð er fyrir sama glæp, er hins vegar enn í haldi. Frelsun hinnar 26 ára Siti Aisyah kemur mjög á óvart og voru engar skýringar gefnar á þessari ráðstöfun.

Hún og hin þrítuga Doan Thi Huon voru sakaðar um að hafa myrt Kim Jong-Nam, hálfbróður norður-kóreska leiðtogann á alþjóðaflugvellinum í Kuala Lumpur hinn 13. febrúar 2017, þegar þær nudduðu klút framan í andlit hans, sem reyndist vættur í bráðdrepandi taugaeitri. Kim dó 20 mínútum síðar. Málið vakti heimsathygli, enda morðið hvort tveggja afar óvenjulegt og sérlega bíræfið.

Konurnar tvær hafa jafnan haldið fram sakleysi sínu og fullyrt að þær hafi verið vélaðar til verksins af mönnum sem töldu þeim trú um, að þær væru að taka þátt í sjónvarpshrekk með falinni myndavél.

Án skýringa

Saksóknarinn í málinu mætti fyrir dómara í morgun og fór fram á að allar sakargiftir á hendur Aisyah yrðu felldar niður. Hann gaf engar skýringar á þessari bón sinni, sem dómarinn féllst á engu að síður. Fréttaritari BBC í Kuala Lumpur, Jonathan Heed, segir að svo virðist sem sönnunargögnin gegn Aisyah hafi ekki verið talin jafn góð og gegn hinni víetnömsku Huon.

Hún átti að koma fyrir dómara í dag þar sem hún hugðist lesa upp yfirlýsingu, en hvorug kvennanna hefur tjáð sig fyrir rétti til þessa. Eftir að Aisyah var látinn laus fóru verjendur hennar hins vegar fram á réttarhlé, og féllst dómarinn á það.  

Haft er eftir sendiherra Indónesíu í Malasíu að reynt verði að koma Aisyah til síns heima eins fljótt og hægt er.