Nígeríski karlmaðurinn sem grunaður er um að hafa smitað konur af HIV hefur verið úrskurðaður í gæsluvarðhald til 20. ágúst. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu rannsakar málið í samvinnu við sóttvarnarlækni.
Héraðsdómur Reykjavíkur hefur úrskurðað manninn í varðhald að kröfu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Í tilkynningu sem lögregla sendi frá sér fyrr í dag kemur fram að meðal annars sé verið að rannsaka hvort fleiri konur kunni að hafa verið í samneyti við manninn og hvort þær séu smitaðar.
Í tilkynningunni er aðeins talað um alvarlegan smitsjúkdóm. Haraldur Briem sóttvarnarlæknir staðfestir við fréttastofu að grunur leiki á HIV-smiti af völdum mannsins.
Fréttastofa hefur fengið staðfest að maðurinn sé nígerískur hælisleitandi en Vísir greindi frá því.