Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Meint svindl hjá Framsókn ekki kært

10.10.2016 - 12:34
Mynd með færslu
 Mynd:
Engin formleg beiðni eða kæra hefur borist laganefnd Framsóknarflokksins vegna meints svindls í formannskjöri á flokksþingi hans 1.-2. október. Þetta segir Einar Gunnar Einarsson, framkvæmdastjóri Framsóknarflokksins.

Sveinn Hjörtur Guðfinnsson, formaður Framsóknarfélags Reykjavíkur sagði í viðtali á Útvarpi Sögu daginn eftir flokksþing Framsóknarmanna að honum sýndist sem svo að það hefði verið svindlað í kosningu til formanns. Fjölmargir einstaklingar, sem hefðu átt að vera á kjörskrá, hafi ekki fengið að kjósa.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, sem beið lægri hlut fyrir Sigurði Inga Jóhannssyni í formannskjörinu, tók undir það í viðtali á Bylgjunni að margir hefðu ekki fengið að kjósa, þó hann hafi ekki viljað tala um svindl. Hvorki Sveinn Hjörtur né Sigmundur Davíð hafa svarað fyrirspurnum fréttastofu um þetta. Kosninguna önnuðust starfsmenn skrifstofu Framsóknarflokksins. Einar Gunnar segir að málið verði ekki kannað frekar. Engar kærur eða beiðnir um athugun hafi borist skrifstofunni eftir flokksþingið.

Um framkvæmd kosninganna segir Einar Gunnar að kjörbréf flokksfélaga hafi þurft að berast viku fyrir setningu flokksþings, þ.e. laugardaginn 24. september klukkan 9:30. Til viðbótar eru svo sjálfkjörnir fulltrúar, miðstjórnarmenn, með atkvæðisrétt á flokksþingi. Á flokksþinginu var skipuð fimm manna kjörbréfanefnd, eins og venja er til, sem fór yfir vinnuna, kjörskrá prentuð út og staðfest af henni. Kjörbréfanefnd skilaði svo áliti sínu til þingsins varðandi fulltrúatölu og atkvæðisrétt fulltrúa. Framkvæmd kosninganna var svo í höndum sjö manna kjörstjórnar.

Athugasemd ritstjórnar: Þessi frétt hefur verið uppfærð. Þegar fréttin birtist fyrst höfðu engin svör fengist um hvort meint kosningasvindl væri til rannsóknar innan Framsóknarflokksins. Svör bárust kl. 12:40 og hefur fréttinni verið breytt til samræmis við þær upplýsingar.