„Megxit“ veldur upphlaupi í Bretlandi

09.01.2020 - 08:56
epa08110603 Britain's Prince Harry (R) and his wife Meghan visit Canada House in London, Britain, 07 January 2020. Canada House houses the offices of the High Commission of Canada in the United Kingdom. The Duke and Duchess of Sussex thanked the High Commissioner for the 'warm hospitality' during their six-week sabbatical.  EPA-EFE/FACUNDO ARRIZABALAGA
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Öll dagblöð í Bretlandi leggja forsíður sínar í dag undir nýjustu tíðindi af Harry prinsi og Meghan hertogaynju, eiginkonu hans. Þau tilkynntu í gær að þau ætluðu að segja sig frá konunglegum embættisskyldum sínum og verða fjárhagslega sjálfstæð.

Einkum eru það götublöðin eða æsifréttablöðin sem fara hamförum í umfjöllun sinni um ákvörðun hjónanna. Ástandinu í fjölskyldu Elísabetar drottningar er lýst sem borgarastríði. The Sun greinir til að mynda frá því að drottning sé afar óánægð og að Vilhjálmur prins, eldri bróðir Harrys, og Karl ríkisarfi, faðir þeirra, séu ofsareiðir. Sun kallar ákvörðunina „Megxit“ og vísar þannig til  „Brexit“, útgöngu Breta úr Evrópusambandinu.

Daily Telegraph segir í fyrirsögn að Harry og Meghan hafi sagt upp í fyrirtækinu. Í The Independent kemur fram að drottningin og nánir ættingjar hafi ekki fengið að vita um ákvörðun hertogahjónanna fyrr en fjölmiðlar greindu frá henni.

Guardian rifjar upp Harry og Meghan séu afar óánægð með umfjöllun breskra fjölmiðla um sig. Til dæmis hafi Meghan ákveðið að fara í mál við Mail On Sunday fyrir að birta handskrifað bréf hennar til föður síns. Einnig er minnt á að Harry hafi sagt að umfjöllun bresku blaðanna um eiginkonu sína minni á meðferðina sem Díana, móðir hans, fékk síðasta árið sem hún lifði.

Ákvörðunin hefur einnig fengið umfjöllun í Bandaríkjunum. New York Post greinir frá því á forsíðu að Harry og Meghan hafi ákveðið að segja skilið við konungsfjölskylduna og gerast alþýðufólk.

 

asgeirt's picture
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi