Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Megum búast við gosmengun um allt land

15.09.2014 - 10:33
Mynd með færslu
 Mynd:
Búast má við brennisteinsdíoxíðmengun úr jarðeldunum í Holuhrauni um allt land ef gosið heldur áfram. Þetta segir sérfræðingur í loftmengun hjá Umhverfisstofnun. Mælingar á Grensásvegi í Reykjavík í gærkvöld sýndu óvenjuháar mengunartölur. Brennisteinslykt fannst víða.

Brennisteinsdíoxíðmengun mældist yfir 1.250 míkrógrömm á rúmmetra við grunnskólann í Reykjahlíð í Mývatnssveit um ellefu-leytið í gærkvöld. Mengunin telst vera yfir heilsumörkum þegar brennisteinsdíoxíð er komið yfir 600 míkrógrömm á rúmmetra. Mengunin mældist í stuttan tíma í Mývatnssveit vegna eldgossins í Holuhrauni, en hún hefur verið í lágmarki eftir klukkan 11 í gærkvöld.

Mælingar fóru yfir 4000 míkrógrömm á rúmmetra á Reyðarfirði á föstudagskvöld, en áður en gosið í Holuhrauni hófst höfðu hæstu mælingar verið um 200 míkrógrömm og var það við iðnaðarsvæðið á Grundartanga. 

Dökk móða lá yfir Mývatnssveitinni í gær og varð fólk þar vart við óþægindi í öndunarfærunum. Búist er við að mengun verði áfram yfir norðaustanverðu landinu í dag. Mælingar á Grensásvegi í Reykjavík sýndu í gærkvöld óvenjuhátt magn brennisteinsdíoxíðs.

„Það er reyndar mjög lítið en við erum að velta fyrir okkur í ljósi mistursins sem hefur verið í loftinu núna síðustu daga hvort það gæti verið eitthvað tengt gosinu," segir Þorsteinn Jóhannsson, sérfræðingur í loftmengun hjá Umhverfisstofnun. „Það er örlítil hækkun á Grensásvegi, varla markæk, örlítið meira en tvö til fjögur míkrógrömm, en það er alveg hugsanlegt að við séum að fá eitthvað af gosefnum til okkar eftir stóran hring suður í Atlantshaf og til baka."

Þorsteinn segir allt benda til að mengunin dreifist víðar ef fram heldur sem horfir. 

„Miðað við sama gang í gosinu getum við búist við svona háum styrkjum, sérstaklega á Norðvesturlandi áfram og svo væntanlega kemur vindátt til með að breytast og þá getum við búist við þessu um allt land." 

[email protected]