Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Mega selja banka, sendiráð og fiðlu

06.09.2019 - 09:59
Mynd með færslu
 Mynd: Landsbankinn
Ríkinu verður heimilt að selja eignarhluti þess í bönkunum, húsnæði dómstóla og lögregluembætta og Maggini-fiðlu Sinfóníuhljómsveitar Íslands samkvæmt fjárlagafrumvarpi ársins 2020.

Í hverju fjárlagafrumvarpi er að finna hinar ýmsu heimildir til ráðstöfunar ríkiseigna, hvort sem um ræðir jarðir, húseignir, hluti í ríkisfyrirtækjum eða einstaka muni. Þótt heimildirnar séu til staðar er ekki þar með sagt að viðkomandi eignir verði seldar eða keyptar. Þannig hefur heimild til sölu eignarhluta ríkisins í bönkunum verið fyrir hendi í nokkur ár án þess að hún hafi veirð nýtt.

Undir liðnum „sala húsnæðis“ er til að mynda að finna heimildir til að selja húsnæði dómstóla, lögreglu og sýslumannsembætta, óhentugar eða óhagkvæmar húseignir utanríkisþjónustunnar erlendis, lögreglustöðina að Hverfisgötu, Tollhúsið við Tryggvagötu, gamla hegningarhúsið á Skólavörðustíg og húsnæði Héraðsdóms Reykjavíkur og Landsréttar.  

Að sama skapi eru heimildir til að kaupa eða leigja húsnæði fyrir skrifstofur ráðuneyta, sendiherrabústaði í Washington, London og New York, húsnæði fyrir hverfisstöðvar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu svo og að kaupa sumarbústaði í þjóðgarðinum á Þingvöllum og næsta nágrenni hans. Einnig er heimild til að ganga til samninga við Reykjavíkurborg um lóð undir flugstöð sem fyrirhugað er að reisa við Reykjavíkurflugvöll.

Sem fyrr er heimild til að selja eignarhlut ríkisins í Íslandsbanka sem og hlutinn í Landsbankanum umfram 70 prósent af heildarhlutafé bankans, eignarhlut ríkisins í Sparisjóði Austurlands, í Endurvinnslunni hf. sem og að nýta samningsbundinn rétt til að breyta láni Vaðlaheiðarganga hf. í hlutafé. Ekki er minnst á heimildir til að selja rekstur Keflavíkurflugvallar.

Undir liðnum „ýmsar heimildir“ kennir ýmissa grasa. Svo sem er heimild til að selja Maggini-fiðlu Sinfóníuhljómsveitar Íslands og verja andvirðinu til kaupa á öðru og hentugra hljóðfæri. Heimild er til að kaupa þrjár nýjar björgunarþyrlur fyrir Landhelgisgæsluna og selja TF-LIF og nýtt rannsóknarskip fyrir Hafrannsóknarstofnun sem og að semja við borgina umnýtt fyrirkomulag vegna Hörpu.

 

Magnús Geir Eyjólfsson