Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Mega ekki efla netsamband í Borgarfirði

14.09.2013 - 18:40
Mynd með færslu
 Mynd:
Fjarskiptasjóður má eingöngu stuðla að öflugra netsambandi á landsvæðum þar sem markaðsbrestur hefur orðið. Þetta þýðir að þótt netsamband sé mjög lélegt í ákveðnum byggðarlögum getur sjóðurinn ekkert gert.

Í Kastljósi í gær kom fram að netsamband á Borgarfirði eystri er mjög lélegt. Þrátt fyrir það er ljósleiðari á staðnum, en til þess að geta notað hann þarf búnað sem kostar um tvær milljónir króna. Fjarskiptafyrirtækin telja það ekki svara kostnaði að fjárfesta í þessum búnaði og því íhuga Borgfirðingar að leggja í púkk og borga fyrir hann sjálfir. 

Eitt af hlutverkum fjarskiptasjóðs, sem heyrir undir Innanríkisráðuneytið, er að styrkja verkefni sem miða að því að efla fjarskipti í landinu. Gunnar Svavarsson, formaður sjóðsins, segir að honum sé hins vegar óheimilt að efla netsambandið á Borgarfirði. Sjóðnum sé einungis heimilt að aðstoða þar sem markaðsbrestur er. „Það þýðir að þar sem við höfum farið varðandi uppbyggingu GSM á þjóðvegum landsins, eða á háhraðaneti hjá hátt í 200 bæjum í landinu, þá höfum við verið að byggja upp þar sem enginn annar hefur getað farið inn. Þetta hefur þá verið gert í samstarfi við fjarskiptafyrirtækin,“ segir Gunnar. 

Hann segir að í raun og veru sé Borgarfjörður eystri ekki skilgreindur sem svæði þar sem hafi orðið markaðsbrestur. „Og þá eru það bara skýrar kröfur miðað við það evrópska umhverfi sem við vinnum í að við getum ekki farið inn enda er líka löggjöfin þannig um Fjarskiptasjóð að við höfum ekki heimildir til að styrkja verkefni eins og þetta,“ segir hann. Engu skipti þótt netsamband sé mjög lélegt. „Auðvitað er það eitthvað sem er verið að skoða, ekki bara hér á landi heldur líka í Evrópu, að gæðin séu eitthvað sem þurfi að vera viðmið,“ segir hann.

Gunnar segir að fjölmargir hafi haft samband við Fjarskiptasjóð til að kanna hvort sjóðurinn geti komið að uppbyggingu í þeirra byggðalagi. Sjóðurinn geti ekki alltaf komið til aðstoðar, en margir vilji fara í uppbygginguna á eigin spýtur, bæði sveitarfélög og aðrir.