Með höfuðið inni í stærsta leiksviði heims

Með höfuðið inni í stærsta leiksviði heims

24.11.2016 - 21:12

Höfundar

Björk Guðmundsdóttir hefur aldrei verið hrædd við að kanna nýjar lendur í list sinni, og hefur nú hafið innreið sína í veröld sýndarveruleikans. Á sýningunni Stafrænn heimur Bjarkar, sem opnuð var í Hörpu fyrr í mánuðinum, gefst gestum kostur á að upplifa tónlistina af síðustu plötu hennar, Vulnicuru, með öllum skilningarvitum. Hún segir spennandi að vinna með miðil sem enn sé í mótun og að þessi tækni opni tónlistarmönnum leið inn á stærsta leiksvið heims.

Rökrétt þróun

Sýning Bjarkar var fyrstu opnuð í Ástralíu síðastliðið sumar en kom við í Tókýó, London og Montreal áður en hún var opnuð í Hörpu í nóvember. Á hverjum viðkomustað bætist eitt verk við sýninguna en myndböndin nýta sér allt litróf sýndarveruleikatækni samtímans. Þótt tæknin sé mörgum framandi lítur Björk á sýndarveruleika sem rökrétt framhald á ferli sínum.

„Já, þetta var í raun og veru náttúruleg þróun frá mínum bæjardyrum séð. Tónlistarmyndbandið er form sem ég hef unnið mikið að frá því að ég var í Sykurmolunum. MTV var í raun og veru sýndarveruleiki 9. áratugarins. Það má ekki gleyma því að öll þessu viðteknu form, eins og að skella myndbandi í sjónvarpið, voru mjög róttæk á sínum tíma. Þetta er svolítið sama tilfinning í sýndarveruleikanum og það er mjög skemmtilega að taka þátt í þessu formi meðan það er enn verið að skilgreina hvað það er.

Ráðrík en líka lýðræðisleg

Björk hefur ávallt lagt mikið upp úr tónlistarmyndböndum sínum. „Þegar ég hætti í hljómsveitum og fór að gera mína eigin tónlist varð ég miklu ráðríkari þar; ræð kannski 80 prósent af mínum plötum og tek svo inn samstarfsfólk. En ég er líka létt lýðræðisleg týpa, finnst gaman í hópvinnu, var tíu ár í hljómsveitum þar sem við unnum í hóp, og það yfirfærðist á þetta sjónræna hjá mér. Þeir leikstjórar, sem ég vinn með, skrifa nafnið sitt undir að lokum en við James Merry, sem ég vinn mikið með núna, skrifum sögurnar með leikstjóranum.“

Vasa-Wagner

Björk segir að sýndarveruleikinn feli í raun í sér draumsýn tónlistarmanna á borð við Richard Wagner um að koma öllum listgreinum fyrir í sama verkinu. „Já þetta er einhver vasa-Wagner. Ég held að margt tónlistarfólk, alveg síðan að Wagner var og hét, hafi verið spennt fyrir því að taka öll skilningarvitin inn og hafa 360° leiksvið. Þú ert bara með hausinn inni í stærsta leiksviði heims þar sem allt getur gerst. Og þetta er svo spennandi - ógeðslega spennandi.“