Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Með aðsetur milli ófærra heiða

27.03.2018 - 07:30
Mynd: Jóhannes Jónsson / RÚV/Landinn
Um 45 manns hafa aðsetur í vinnubúðum í botni Arnarfjarðar nú þegar framkvæmdir er hafnar við Dýrafjarðargöng. Vinnubúðirnar eru í námunda við gangamunnann, við Mjólkárvirkjun, milli Dynjandis- og Hrafnseyrarheiða. Vegirnir yfir heiðarnar eru ekki ruddir yfir háveturinn og þá þarf gangagerðarfólkið að reiða sig á mánaðarlegar opnanir á veginum um Dynjandisheiði eða siglingar til Bíldudals til að komast til og frá vinnubúðunum.

„Þetta er ekki svo mikil breyting frá fyrri stöðum," segir Josef Malknecht, verkefnastjóri hjá Metrostav við Dýrafjarðargöng. „Mennirnir vinna langar vaktir, borða, hringja heim og þeir sofa. Stóri munurinn felst í því að hér er ekki einu sinni sundlaug í nágrenninu."

Tereza Wienerová sem er hagfræðingur hjá Metrostav segir að þau lifi þetta af en að einangrunin ásamt slæmu veðri geri viðveruna erfiðari. 

Starfsfólk Dýrafjarðarganga dvelur frá nokkrum dögum upp í sex vikur við vinnu í botni Arnarfjarðar og fer þess á milli heim í frí. Heim er mislangt í burtu en starfsfólk Metrostav er flest frá Slóvakíu og Tékklandi.

hallao's picture
Halla Ólafsdóttir
dagskrárgerðarmaður
eddasif's picture
Edda Sif Pálsdóttir