MDE dæmir í máli Gests og Ragnars gegn ríkinu

25.10.2018 - 15:35
Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot - RÚV
Mannréttindadómstóll Evrópu kveður í næstu viku upp dóm í máli lögmannanna Gests Jónssonar og Ragnars H. Hall gegn íslenska ríkinu. Þeir voru dæmdir í Héraðsdómi Reykjavíkur til að greiða eina milljón króna hvor í sekt fyrir að segja sig frá málsvörn í al Thani málinu þrátt fyrir að dómari hefði hafnað slíkri beiðni. Við það þurfti að skipa nýja verjendur og fresta dómsmálinu.

Gestur og Ragnar telja að brotið hafi verið á sér með því að dómarinn sektaði þá án þess að gefa þeim færi á málsvörn. Þeir telja líka að verknaður þeirra sé ekki refsivert lögbrot og að hvorki landslög né dómaframkvæmd hefði gefið þeim ástæðu til að búast við því að vera dæmdir til sektargreiðslu.

Lögmennirnir tveir höfðu krafist þess að málflutningi í al-Thani málinu yrði frestað þar sem þeir sögðust þurfa lengri frest til að undirbúa málsvörn umbjóðenda sinna. Ákæruvaldið andmælti þessu og dómari í málinu við Héraðsdóm Reykjavíkur hafnaði beiðninni. Gestur og Ragnar boðuðu þá til blaðamannafundar þar sem þeir gerðu grein fyrir ákvörðun sinni að segja sig frá málinu. Dómari samþykkti skipun nýrra verjenda í framhaldi og aðalmeðferð málsins var frestað. Þegar dómur var kveðinn upp kom í ljós að fjölskipaður dómur hafði ákveðið að sekta lögmennina.
 

 

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi