Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

McDonalds lokar öllum búllum á Bretlandi og Írlandi

23.03.2020 - 06:50
Atvinnulíf · Erlent · Bretland · COVID-19 · Írland · Evrópa · Viðskipti
Mynd með færslu
 Mynd: CC0 - Pixabay
Skyndibitakeðjan McDonalds lokar öllum sínum 1.270 búllum á Bretlandi og Írlandi á miðnætti í kvöld vegna hraðrar útbreiðslu kórónaveirunnar sem veldur COVID-19. Breskir fjölmiðlar greina frá þessu. Keðjan er þegar búin að loka öllum veitingasölum sínum en hefur selt bæði gangandi og akandi viðskiptavinum borgara og annað í gegnum lúgu, til að taka með sér heim. Í tilkynningu frá McDonalds í Bretlandi segir að ákvörðunin sé tekin með velferð starsfólks og viðskiptavina fyrir augum.

Boris Johnson, forsætisráðherra tilkynnti á föstudag að veitingastaðir og kaffihús yrðu að loka sölum sínum, en staðir sem selja mat til að taka með sér mættu halda því áfram.

Enginn uppsagnarfrestur hjá 135.000 starfsmönnum

Um 135.000 manns vinna hjá McDonalds á Bretlandi og Írlandi, segir í frétt BBC, og yfirgnæfandi meirihluti þeirra á lausasamningi, sem þýðir að hægt er að segja þeim upp fyrirvaralaust, án nokkurrar greiðslu.

BBC hefur eftir talskonu keðjunnar að fólk sem er fastráðið hjá móðurfyrirtækinu í Bretlandi muni fá full laun til 5. apríl, en eftir það sé reiknað með að ríkið taki við og greiði þeim 80 prósent fyrri launa, samkvæmt boðuðum björgunaraðgerðum ríkisstjórnarinnar. Keðjan sjálf rekur hins vegar aðeins hluta McDonalds-staðanna í löndunum tveimur, rekstur annarra er leigður út. Talskonan segir hvern rekstraraðila hafa sinn eigin hátt á launagreiðslunum, en hún búist við að þeir fylgi fordæmi móðurfélagsins. 
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV