Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Maturinn 67% dýrari í Reykjavík en í Helsinki

06.02.2019 - 14:41
Innlent · ASÍ · Neytendur · verðlag
Mynd með færslu
 Mynd: Þór Ægisson - RÚV
Matvörukarfa er mun dýrari í Reykjavík en í höfuðborgum hinna Norðurlandanna, samkvæmt niðurstöðum nýrrar verðkönnunar Verðlagseftirlits ASÍ á matvöru á Norðurlöndum. Matarkarfan er ódýrust í höfuðborg Finnlands, Helsinki.

Matarkarfan í Reykjavík reyndist vera 67 prósent dýrari en í Helsinki. Könnunin var gerð 5. til 9. desember síðastliðinn í leiðandi lágvöruverðsverslunum í höfuðborgum Norðurlandanna. Borið var saman verð á algengum neysluvörum í sambærilegum verslunum, vörur á borð við mjólk, osta, kjötvörur, grænmeti, ávexti og brauð. Í þeim tilvikum þar sem fleiri en ein tegund af tiltekinni vöru var fáanleg í versluninni, var ávallt valinn ódýrasti kosturinn sem uppfyllti sett skilyrði. 

Matarkarfan var dýrust í Reykjavík og næst dýrust í Osló. Hún er 40 prósent dýrari í Reykjavík en í Osló. Þar á eftir koma Kaupmannahöfn, Stokkhólmur og Helsinki. Verð á þeim vörum sem var kannað var í 12 tilvikum af 18 hæst í Reykjavík. Vöruverðið var oftast lægst í Helsinki, eða í 8 tilvikum af 18.

Verðmunur á kílóverði á brauðosti var 152 prósent. Dýrastur er hann á Íslandi, 1.411 krónur kílóið en ódýrastur í Helsinki þar sem kílóið kostar 556 krónur. Töluverður munur er líka á verði á grænmeti. 560 prósenta munur er á hæsta og lægsta verði á gulrótum. Hæsta verðið var í Reykjavík 359 krónur kílóið en það lægsta í Stokkhólmi, 54 krónur.

Nánar má lesa um niðurstöður könnunarinnar á vef ASÍ. Þar segir að niðurstöðurnar séu í takt við niðurstöður sambærilegrar verðkönnunar sem Verðlagseftirlitið gerði árið 2006. Helsta breytingin sé sú að meiri munur er á Íslandi og Osló í dag en þá. Nú er 40 prósenta verðmunur en var árið 2006 einungis 3 prósent. Þá var Stokkhólmur ódýrasta borgin en í dag er það Helsinki.

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir