Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Mátti ekki nota bréfsefni sendiráðs eða titil

17.01.2019 - 13:47
Mynd með færslu
 Mynd:
Sendiherrar hafa ekki heimild til að nota bréfsefni sendiráðs síns eða starfstitil í persónulegum tilgangi. Þetta kemur fram í svari utanríkisráðuneytisins við fyrirspurn fréttastofu. Aldis Schram, dóttir Jóns Baldvins Hannibalssonar, greindi frá því í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun að Jón Baldvin hefði notað bréfsefni sendiráðs Íslands í Washington þegar hann óskaði eftir því að hún yrði nauðungarvistuð á geðdeild.

Aldís sagði í Morgunútvarpinu að Jón Baldvin hafi getað sem ráðherra og síðar sendiherra sent bréf dómsmálaráðuneytinu bréf til þess að hún yrði nauðungarvistuð.

Morgunútvarpið hefur gögn undir höndum þar sem fram kemur að Jón Baldvin notaði bréfsefni frá sendiráðinu þar sem hann er meðal annars titlaður sendiherra.

Jón Baldvin hefur ekki gefið kost á viðtali vegna þessa en áður hefur verið greint frá því að fjöldi kvenna hafi gengið í metoo-hóp á Facebook þar sem fjallað er um áreitni hans.

Í svari ráðuneytisins kemur fram að ekki séu til skrifaðar reglur um hvernig starfstitill eða bréfsefni sendiráðs er notað. Bréfsefni sendiráða skuli þó eingöngu nota til erinda sem leiði af starfi bréfritara. Sömu reglur gildi um notkun á starfstitli sendiherra.

Í svari ráðuneytisins er meðal annars vísað til 15. greinar siðareglna utanríkisþjónustunnar og 2. greinar siðareglna fyrir starfsfólk Stjórnarráðs Íslands. Þar sé kveðið skýrt á um að starfsfólk skuli ekki notfæra sér stöðu sína í þágu einkahagsmuna. Þá eigi starfsfólk Stjórnarráðsins að setja skýr mörk milli einkalífs og opinberra skyldustarfa. Athygli vakti, þegar bréf Jóns Baldvins til systurdóttur eiginkonu sinnar leit dagsins ljós í Nýju lífi fyrir sjö árum, að það var skrifað á bréfsefni sendiráðsins í Washington. 

Utanríkisráðuneytið segir að því hafi ekki borist neinar kvartanir vegna notkunar sendiherra á starfstitli eða bréfsefni sendiráða í persónulegum tilgangi. Engar kvartanir á hendur Jóni Baldvini á meðan hann var sendiherra í Washington eða Helsinki á sínum tíma séu skráðar í málaskrá ráðuneytisins. Á það er þó bent að rafræn málaskrá hafi verið tekin í notkun árið 2000. Fyrir þann tíma hafi skjöl í skjalasafni eingöngu verið á pappírsformi. „Þau eru ekki greiðlega aðgengileg með svo skömmum fyrirvara,“ segir í svari ráðuneytisins.

Utanríkisráðuneytið telur jafnframt að það sé ekki rétti aðilinn til að rannsaka ásakanir um refsiverða háttsemi fyrrverandi starfsfólks. Ráðuneytið sé þó reiðubúið að veita þar til bærum aðilum alla aðstoð við slíkt. „Áréttað skal að utanríkisráðuneytinu var ekki kunnugt um þessar bréfaskriftir sendiherrans fyrr en greint var frá þeim í fjölmiðlum, sem gerðist eftir að hann lét af störfum.“ Þau hafi ekki verið fengin skjalasafni ráðuneytisins til varðveislu eða vistuð í málaskrá.