Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

„Matskerfið úrelt og hvatarnir óheppilegir“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
„Þetta er gamalt kerfi og úrelt og óljóst hvort það mælir það sem það á að mæla.“ Þetta segir framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu um það kerfi sem stjórnvöld nota til þess að meta gæði þjónustu sem veitt er á hjúkrunarheimilum. Framkvæmdastjóri Öldrunarheimila Akureyrar segir fjárhagslega hvata í kerfinu óheppilega. SFV vilja ekki framlengja rammasamning ríkisins við hjúkrunarheimili í núverandi mynd og gagnrýna meðal annars ósamræmi í kröfum eftirlitsaðila til þjónustunnar.

Svara hundruðum spurninga um hvern íbúa

RAI-matskerfið varð til í Bandaríkjunum fyrir um þrjátíu árum og hefur verið notað hér í um 20 ár. Það á að endurspegla raunverulegan aðbúnað íbúa. Gæðavísarnir sem horft er til hér á landi og hafa verið aðlagaðir að íslenskum aðstæðum eru 20 talsins. Til dæmis er miðað við að algengi þvagfærasýkinga fari ekki yfir 16% og að hlutfall þeirra íbúa sem fá svefnlyf oftar en tvisvar í viku fari ekki yfir 53%. Eins og fram kom í Speglinum í vikunni er við mat á gæðum hjúkrunarheimila ekki stuðst við nein skýr viðmið um mönnun. Fjárveitingar til hjúkrunarheimila taka þess í stað mið af svokölluðum þyngdarstuðli. Þrisvar á ári svarar fagfólk á hjúkrunarheimilum hundruðum spurninga um hvern íbúa og hjúkrunarfræðingur sem hefur yfirumsjón með matinu skráir upplýsingarnar inn í miðlægan gagnagrunn. Heimili þar sem meðalumönnunarþörf íbúa telst mikil fær meira greitt en heimili þar sem meðalumönnunarþörf, eða þyngd íbúa, telst lítil. Þjálfun vegur þungt, íbúum sem fá sjúkraþjálfun, iðjuþjálfun eða talþjálfun fylgir mikið fé, sömuleiðis þeim sem þurfa flókna hjúkrun. Hegðunarvandi og slæm áttun vega mun minna í þessu kerfi. 

Skráning ekki framkvæmd eins milli heimila

Rammasamningur ríkisins við hjúkrunarheimili rennur út í lok þessa árs og viðræður um hvort skuli framlengja hann hefjast í sumar. Eitt af því sem kann að rata að samningaborðinu er umræða um matskerfið. „Það liggur fyrir og lá fyrir þegar samningurinn var gerður á sínum tíma að það hefur ekki verið haldið nægilega vel utan um kerfið. Þetta er gamalt kerfi og úrelt. Það þarf að uppfæra það. Það þarf að koma á samræmdri kennslu. Það þarf að vera samræmt eftirlit um notkun og það þurfa að koma fram frekari leiðbeiningar frá stjórnvöldum um það hvernig eigi að skrá í kerfið og halda betur utan um þetta þannig að það sé þá yfirhöfuð hægt að leggja almennilegt mat á það hvort þetta er rétt matstæki. Það hafa verið ýmsar skoðanir uppi um það,“ segir Eybjörg Hauksdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu. Það séu vísbendingar um að það séu talsverðir vankantar á skráningu í kerfið, hún sé ekki framkvæmd eins milli heimila. „Þá er mjög erfitt að ná fram marktækri niðurstöðu út úr slíku kerfi.“ 

Segja milljörðum úthlutað á grundvelli úrelts tækis

Í grein sem Jórunn María Ólafsdóttir, hjúkrunarforstjóri Brákarhlíðar í Borgarnesi, og María Fjóla Harðardóttir, framkvæmdastjóri heilbrigðissviðs Hrafnistuheimilanna, skrifuðu í Fréttablaðið síðasta haust segir að gæðavísar kerfisins séu gagnlegir en matið á þyngd íbúa gallað. Hið opinbera geri kröfu um notkun úrelts mælitækis sem ekki sé tryggt að notað sé með samræmdum hætti og á grundvelli þess sé milljörðum króna úthlutað til hjúkrunarheimila. Það þurfi að færa þetta tuttugu ára gamla kerfi í nútímalegra horf. Nýjar útgáfur af kerfinu séu til, það hafi bara ekki fengist fjármunir til að uppfæra það. 

Af hverju er lýsið talið með? 

Halldór Guðmundsson, framkvæmdastjóri Öldrunarheimila Akureyrar, segir að gæðavísar séu hjálpartæki, Öldrunarheimili Akureyrar hafi notað þá markvisst til þess að bæta innra starfið. Aftur á móti verði að hafa fyrirvara á réttmæti þeirra og áreiðanleika. Það megi velta því fyrir sér hvaða gæðavísar séu lagðir til grundvallar og hverjir séu mælikvarðarnir í kringum þá. „Týpíska umræðuefnið hefur verið gæðavísirinn sem segir til um algengi á notkun níu lyfja eða fleiri. Þá má velta fyrir sér, af hverju níu lyf? Af hverju eru lýsi og fæðubótarefni talin með? Það er mjög auðvelt að fara yfir þennan kvarða.“

Hér má sjá hvernig nokkrir gæðavísar koma út á landsvísu. 

 

Alls konar sögur um að það sé hægt að „manipúlera“

Hann hefur ákveðnar efasemdir um að þyngdarstuðlar kerfisins, sem hafa mikil áhrif á hvernig milljarðaframlög ríkisins skiptast á milli hjúkrunarheimila, mæli þjónustuþörf íbúa nægilega vel. Þá hefur hann áhyggjur af skráningu og því hvort matsmennirnir kunni til verka. En er þá eitthvert mark á þessu takandi? Halldór segist bara geta talað fyrir sitt heimili. „Við höfum lagt okkur fram um að framkvæma matið eins og við höfum bestu þekkingu til. við höfum auðvitað heyrt alls konar sögur um að það sé hægt að manipúlera eða stýra því hvað maður fær út úr þessu mati.“

Mynd með færslu
 Mynd: rúv
Hjúkrunarfræðingar hafa umsjón með skráningu í RAI-matskerfið.

Eins og sagan af búðardrengnum

Halldór segir að það sé stór galli hvað mælitækið er tengt peningunum. Þetta sé eins og með kaupmanninn sem beini þeim tilmælum til búðardrengsins að mæla nú rétt. Þetta rýri gæðavísakerfið í heild, það sé ekki víst að kerfið endurspegli hvað sé að gerast í öldrunarþjónustu almennt. „Vegna þess að það er verið að tengja hvatann í aðra átt en í áttina að gæðum. Hver er hvatinn að því að hækka kvarðann þinn? Hann er kannski fjárhagslegur og samkvæmt því þá kemurðu út, eðli máls samkvæmt, með betri gæði því þú ert að merkja inn á að þú sért í þessari og þessari þjónustu eða veitir þetta og þetta úrræði og svarir þessari þörfinni. Þetta er svona hringur sem spilar saman. Það er ekkert víst að mælitækið sé að mæla það sem því er ætlað að gera og þar af leiðandi getum við ekki endilega treyst því að niðurstaðan, sem sýnir okkur að gæðin séu að hækka, að það sé alveg þannig. Við höfum ekkert eftirlit og engar úttektir á því.“ 

Þeir sem tapa eru þá væntanlega íbúar hjúkrunarheimila? 

„Þetta snýst allt um íbúana, það er ekkert flóknara en það,“ segir Halldór.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Ónóg gæði geta talist vanefnd

Níu gæðavísar tengjast rammasamningnum beint, að sögn Landlæknisembættisins voru þeir valdir vegna þess að það telst vera hægt að bera hjúkrunarheimili saman á grundvelli þeirra. Ef hjúkrunarheimili fer yfir efri mörk gæðaviðmiða skal það tafarlaust gera umbætur á umönnun og meðferð íbúa. Séu gæðavísar á rauðu þrjú matstímabil í röð, það er í heilt ár, á að gera úttekt á heimilinu í samvinnu við Embætti landlæknis. Niðurstaða hennar er svo lögð til grundvallar við mat á því hvort um vanefnd á samningi sé að ræða.  

Fórstu í sjúkraþjálfun í vikunni?

Halldór bendir líka á að niðurstaða Rai-mats geti ráðist af tilviljunum. Það á að meta alla sama daginn og dagsformið er misjafnt. Íbúi sem hefur verið í sjúkraþjálfun vikum saman er kannski veikur þegar Rai-matið fer fram og hefur ekki getað mætt í þjálfun, umönnunarþörf hans mælist þá lítil. „Þetta endurspeglar ekki endilega þá þjónustu sem er verið að mæta á heimilinu.“ Hann segir gæðamatskerfi komin til að vera en að þau þurfi að vera skynsamleg og gerlegt að vinna með þau. Það þurfi því að breyta þessu kerfi og halda því við. 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Það hvort íbúi fer í sjúkra- eða iðjuþjálfun vegur þungt í matskerfinu.

Nauðsynlegt að leiðrétta skekkjur

Rai-fagnefnd hjúkrunarheimila skilaði skýrslu í apríl 2017, þar kom fram að það væru skekkjur í matskerfinu sem nauðsynlegt væri að leiðrétta sem fyrst. Þá hefur fagfólk haldið því fram að það taki ekki mið af þróun sem orðið hafi á hjúkrunarheimilum, íbúar séu veikari og þurfi flóknari hjúkrun. Pétur Magnússon, forstjóri Hrafnistu og formaður Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu, segir kerfið gott að ýmsu leyti en að það þurfi að lagfæra ýmislegt svo það sé sanngjarnt og mæli það sem það á að mæla. Til dæmis þurfi það að endurspegla betur umönnunarþörf fólks sem er líkamlega hresst en glímir við andleg veikindi. 

Matskerfið haft áhrif á áherslur

Hann segir að matskerfið hafi haft áhrif á áherslur í öldrunarþjónustu, það hafi orðið vitundarvakning meðal starfsfólks og gæði hafi raunverulega batnað. Hjúkrunarheimili komist ekki lengur upp með að sleppa mikilvægum þjónustuþáttum á borð við sjúkraþjálfun og iðjuþjálfun. En getur verið að kerfið leiði til rörsýnar, að lögð sé áhersla á ákveðna þætti eða ákveðna einstaklinga en aðrir sitji á hakanum þar sem þjónusta við þá er ekki jafntengd fjárframlögum til hjúkrunarheimila. „Auðvitað er hægt að stilla umræðunni þannig upp en sem betur fer erum við þeirrar gæfu aðnjótandi hér á Íslandi að heilbrigðisstarfsfólk er fyrst og fremst að hugsa um hag fólksins sem það er að hugsa um.“ 

Mynd með færslu
 Mynd: Rúv
Frá Hrafnistu.

Hann segir að það megi aldrei leggja allt traust á eitthvert tölvukerfi. „Þetta náttúrulega byggir á mannlegri innsýn, þjónustugreiningu fagfólks og þekkingu þess. Það er þáttur sem má aldrei gleyma í þessu og lykilatriði.“ 

Fagráð lagt niður

Fagfólk kvartar undan skorti á eftirliti og leiðsögn. Landlæknisembættið skipaði árið 2014 fagráð um RAI-matskerfið sem átti að styðja við faglega og málefnalega vinnu og ákvarðanatöku. Það var lagt niður í fyrrasumar. Eybjörg segir að hugmyndin hafi verið sú að á samningstímabilinu yrði haldið þéttar utan um kerfið, matsmenn þjálfaðir betur og gengið úr skugga um að heimilin væru að skrá inn í það með sambærilegum hætti. „Við teljum alveg nauðsyn á því að þetta verði skoðað og umgjörðin verði lagfærð.“ 

Eftirlitskreppa?

Samkvæmt Rammasamningnum eru það Sjúkratryggingar sem eiga að hafa eftirlit með starfsemi hjúkrunarheimila. Stofnunin á að hafa samráð við Landlækni um framkvæmd þess og fyrirkomulag. Embætti landlæknis á að hafa eftirlit með því að faglegar kröfur til reksturs heilbrigðisþjónustu séu uppfylltar. 

Í reglugerð um mat á heilsufari og aðbúnaði íbúa á hjúkrunarrýmum segir að heilbrigðisráðherra skuli skipa nefnd, RAI-matsnefndina, hún skuli hafa umsjón með RAI-mati og notkun þess í hjúkrunarrýmum. 

Í bréfi sem fulltrúar Sjúkratrygginga, RAI-fagnefndar hjúkrunarheimila og Velferðarsviðs borgarinnar sendu Velferðarráðuneytinu í fyrra er bent á að þessi nefnd hafi ekki verið skipuð. Fagráðið sem Landlæknir skipaði og var lagt af síðastliðið sumar hafi því gegnt hlutverki hennar. Þá var óskað eftir viðræðum um framtíð kerfisins og bent á mikilvægi þess að einhver tiltekinn aðili innan stjórnkerfisins hefði í höndum eftirlit með gæðum, skráningu og áreiðanleika matskerfisins. Þar sem fagráðið hefði verið lagt niður væri óljóst hver skyldi fylgja eftir ábendingum og álitamálum er varða notkun, gæði og meðferð gagna sem tengjast RAI-kerfinu. 

Mynd með færslu
 Mynd: Glatt á hjalla á hjúkrunarhei - RÚV - Rúnar Snær Reynisson
Glatt á hjalla.

Skýrsla bíður birtingar

Í svari landlæknisembættisins við fyrirspurn Spegilsins segir að þyngdarstuðullinn sé reiknaður út frá ótal breytum og á sínum tíma hafi verið gerðar tímamælingar til þess að styðja forsendur hans. Rai-kerfið sé fjölþjóðlegt og breytingar á því flóknar. Ekki sé þó ólíklegt að það verði tekið til endurskoðunar á næstunni. KPMG var falið að gera úttekt á RAI-mælitækjunum og hefur fyrirtækið skilað skýrslu til embættis Landlæknis. Skýrslan verður kynnt heilbrigðisráðherra fljótlega og birt í kjölfarið. 

„Öll heimilin á horriminni“

Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu vilja ekki framlengja rammasamning ríkisins við hjúkrunarheimili í núverandi mynd. Þau gagnrýna ósamræmi í kröfum eftirlitsaðila til þjónustunnar og segja fjárframlög ekki hafa tekið mið af auknum kostnaði. „Það kom ákveðin innspýting inn í grunn hjúkrunarheimila með rammasamningnum. Kom þarna inn einhver hækkun, man ekki hvort það var þrjú eða fimm prósent hækkun á daggjaldagrunninum. Það hefur vissulega eitthvað að segja. Á móti kemur að maður veit ekki hvernig þetta ár kemur út núna þar sem það var skerðing.“ Segir Eybjörg. Hún nefnir hálfs prósents aðhaldskröfu sem gerð var í fjárlögum ársins 2018 og marga nýja útgjaldaliði sem ekki hafi verið gert ráð fyrir. Sjúkratryggingar séu nú að endurskoða gjaldskrána með hliðsjón af þessu. Í svari Sjúkratrygginga við fyrirspurn Spegilsins segir að unnið sé að endurútreikningi í samræmi við breyttar launaforsendur og ákvæði samningsins um verðbætur. Eybjörg vonast eftir leiðréttingu. „En eins og þetta lítur út í dag er talsvert af kostnaðarliðum sem voru ekki bættir með réttum hætti á árinu 2018. Það leiðir til þess að menn þurfa að draga saman að einhverju leyti á móti og það er þannig að ríflega 80% af rekstrarkostnaði hjúkrunarheimila er launakostnaður þannig að yfirleitt bitnar samdráttur náttúrulega bara á mönnun.“ 

Mynd með færslu
 Mynd: Björgvin Kolbeinsson - RÚV
Bæjaryfirvöld fengu nóg.

Halldór Guðmundsson, framkvæmdastjóri Öldrunarheimila Akureyrar, segir að tekjuvandi heimilisins birtist í því að nær allar tekjurnar 95-100% fari til greiðslu launakostnaðar. Laun og launakostnaður hafi hækkað um tugi prósenta en daggjöldin staðið í stað. Hann segir samninginn hafa verið til bóta en segir ekki hægt að framlengja hann í núverandi mynd, daggjöldin þurfi að hækka. „Það eru öll hjúkrunarheimili á horriminni núna sem stendur og það verður einfaldlega að taka það til endurskoðunar. Þessi innbyggða skekkja að taka ekki tillit til eðlilegra launabreytinga eða vera á hverju einasta ári að taka einhverja sparnaðarkröfu inn í dæmið sem bara er ekki að ganga upp.“ 

Akureyrarbær er eitt þeirra sveitarfélaga sem hefur niðurgreitt rekstur hjúkrunarheimila, á árunum 2012-2016 greiddi bærinn 843 milljónir með rekstrinum umfram það sem honum ber, að því er fram kemur í skýrslu sem Akureyrarbær fékk endurskoðunarsvið KPMG til að gera. Bærinn hefur krafist þess að ríkið endurgreiði þessa upphæð, enda beri því lögum samkvæmt að annast þessa þjónustu. „Eftir því sem ég best veit eru þessi mál bara á leið inn í dómskerfið,“ segir Halldór.  

Telja kröfur landlæknisembættisins óeðlilegar

Mynd með færslu
 Mynd: Rúv

Ósamræmi í kröfum eftirlitsstofnana, Sjúkratrygginga og Landlæknisembættisins, er annað sem Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu telja að verði að uppræta áður en fallist verði á framlengingu samningsins. Landlæknisembættið hafi ítrekað gert formlegar athugasemdir við að hjúkrunarheimili uppfylli ekki viðmið þess um lágmarksmönnun og krafist úrbóta. Þetta eru viðmið sem ríkið ákvað að leggja ekki til grundvallar við gerð rammasamnings, þrátt fyrir kröfur SFV þar um. „Það var viðurkennt að greiðslur ríkisins til hjúkrunarheimila taka ekki mið af þessum viðmiðum, það er ekki hægt að uppfylla þessi viðmið.“ Til þess að það væri hægt þyrfti að sögn Eybjargar að hækka daggjöldin um 30%. „Á meðan svo er, á meðan ríkið vill ekki hækka daggjöldin þannig að hægt sé að fara eftir þessum viðmiðum er mjög óeðlilegt að það sé gerð krafa um það af hálfu eftirlitsaðilann.“ 

Heimili krafið skýringa

Eybjörg lét Speglinum í té afrit af nýlegu bréfi Landlæknisembættisins til hjúkrunarheimilis þar sem vísað er í viðmiðin. Af bréfinu má ráða að embættið hafi áður gert athugasemdir við niðurstöður gæðavísa heimilisins og fjölda starfsmanna. Þá er vísað til mönnunarviðmiða landlæknis um hlutfall fagfólks og æskilegan fjölda umönnunarklukkustunda. Á þessu tiltekna heimili voru umönnunarklukkustundirnar 4, lágmarksviðmið landlæknis er 4,65 og hlutfall faglærðra; hjúkrunarfræðinga, sjúkraliða og félagsliða, 34% en landlæknir gerir kröfu um að það fari ekki undir 57%. Í bréfinu segir:

„Ljóst er samkvæmt þessum upplýsingum að allar tölur eru undir öryggisviðmiðum landlæknis og ætla má að það séu tengsl milli lítillar fagmönnunar og lélegra niðurstaðna gæðavísa. Embætti landlæknis óskar eftir upplýsingum um hvernig stjórnendur hjúkrunarheimilisins hyggjast bregðast við þessum niðurstöðum.“ 

Þá nefnir Eybjörg að ákvörðun um að loka Kumbaravogi hafi verið rökstudd, að hluta, með því að vísa til þess að heimilið uppfyllti ekki mönnunarviðmið Landlæknis. 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Setustofa á Kumbaravogi.

Samhljómur milli kröfulýsingar, fagviðmiða og reglugerðar

En hvers vegna gerir Landlæknisembættið þetta? Sigríður Egilsdóttir, verkefnisstjóri sviðs eftirlits- og gæða hjá Embætti Landlæknis rökstyður þetta með því að benda á að samhljómur sé á milli viðmiða embættisins um lágmarksmönnun og ákvæða í reglugerð um faglegar lágmarkskröfur til heilbrigðisþjónustu. Þar segir að fjöldi starfsmanna skuli ætíð taka mið af umfangi og eðli þjónustunnar og aðstæðum hverju sinni. Sömuleiðis segir hún samhljóm á milli fagviðmiðanna og kröfulýsingar velferðarráðuneytis sem er liður í rammasamningnum. 

Það er vissulega samhljómur en munurinn á þessum viðmiðum er þó sá að viðmið landlæknis eru tölusett og skýr en viðmiðin í kröfulýsingunni eru óljós, talað um að það þurfi að vera nógu margt faglært og ófaglært starfsfólk til þess að hægt sé að uppfylla kröfulýsinguna. Greiningardeild Sjúkratrygginga telur kröfulýsinguna svo óljósa að það gæti reynst erfitt að kostnaðargreina hana, en liður í samningnum var að það yrði gert. Þá hefur Ríkisendurskoðun gagnrýnt mönnunarákvæðið í reglugerðinni um lágmarkskröfur til heilbrigðisþjónustu, sagt mikilvægt að stjórnvöld setji nánari viðmið um hvað sé æskilegt. 

Hvað varðar Kumbaravog bendir Sigríður á að mönnun sé aðeins einn af fjölmörgum þáttum sem séu skoðaðir í úttektum, þannig hafi embættið gert margvíslegar aðrar athugasemdir við starfsemi heimilisins, svo sem um brunavarnir og húsakost. 

Ekki endilega mönnun um að kenna ef gæði eru ónóg

Í svari Sjúkratrygginga við fyrirspurn Spegilsins, um hvort það geti talist sanngjarnt að Landlæknisembættið geri athugasemdir um að hjúkrunarheimili fylgi ekki viðmiðum sem þeim ber engin skylda til að fylgja segir: „Ef þjónusta hjúkrunarheimila er í lagi kemur það fram í gæðavísum. Það þarf ekki endilega að vera of lítilli mönnun um að kenna ef gæðaviðmið fara út fyrir viðmiðunarmörk.“ 

Mynd með færslu
Steingrímur Ari Arason Mynd: RÚV Kastljós
Steingrímur Ari Arason, forstjóri Sjúkratrygginga Íslands.

Samtök fyrirtækja í Velferðarþjónustu funduðu með fjárlaganefnd í vikunni og ræddu eftirlitið. Þá hafa þau óskað eftir fundi með nýjum landlækni um mönnunarviðmiðin og samspil eftirlits Sjúkratrygginga og Landlæknisembættisins. 

Rammasamningur ríkisins við hjúkrunarheimili, sem undirritaður var haustið 2016, var sá fyrsti sinnar tegundar. Hann gildir út þetta ár en heimilt er að framlengja hann til ársins 2020. Viðræður um framlengingu  eiga að vera hafnar fyrir júlíbyrjun. Eybjörg segir SFV hafa óskað eftir því við stjórnvöld að hefja viðræður en engin svör hafi borist. Hún segir samninginn hafa haft margt jákvætt í för með sér, það hafi verið samfélagslega nauðsynlegt að semja um þessa þjónustu. Hún vill ekki að samningurinn verði framlengdur í núverandi mynd. „Það er alveg ljóst að heimilin eru ekki tilbúin til þess að starfa áfram undir þessum formerkjum þar sem eftirlitsaðilinn er ekki að taka mið af þeim kröfum sem samningurinn kveður á um. Það hlýtur að þurfa að slípa til og fara yfir hvernig eftirlitið með samningnum á að vera, hvert á að vera hlutverk hvers aðila og hvað ætla menn að leggja til grundvallar í því eftirliti. Að það séu allir á sömu blaðsíðu varðandi það hvaða þjónustu eigi að veita og sé hægt að gera kröfu um.“ 

Líta svo á að samningurinn gildi til 2020

Óljóst er hvað stjórnvöld koma til með að leggja áherslu á í komandi viðræðum. Velferðarráðuneytið bendir á Sjúkratryggingar, segir að þær eigi að annast samningsgerðina. Eflaust þurfi að skoða ýmsa þætti hans með það í huga hvort einhverju þurfi að breyta. Sjúkratryggingar benda aftur á móti á Velferðarráðuneytið, segja áherslur eiga að koma þaðan og þar sem engar slíkar hafi borist sé ekki hægt að tala um hverjar áherslurnar í komandi viðræðum verði. Þá er sýn Sjúkratrygginga á gildistíma samningsins í mótsögn við ákvæði hans um að hann gildi út þetta ár. Í svari þeirra segir að þær líti svo á að samningurinn gildi til ársins 2020, gengið sé út frá því að hann verði framlengdur þar sem það sé afar mikilvægt að starfað sé eftir honum allan samningstímann, meðal annars svo hægt sé að meta árangur af honum.