Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Matarútgjöld aukast um 40 þúsund á ári

10.09.2014 - 18:56
Mynd með færslu
 Mynd:
Matarútgjöld meðalheimilis hækka um 3.500 krónur á mánuði vegna virðisaukaskattshækkunar. Heildarútgjöld matvöru aukast um rúmar 40 þúsund krónur á ári.

Ríkisstjórnin leggur til að virðisaukaskattur á matvöru verði hækkaður úr sjö í tólf prósent frá næstu áramótum. Á móti kemur að hærra virðisaukaskattstigið lækkar úr 25,5 prósentum í 24 prósent. Þá verða almenn vörugjöld afnumin og segir fjármálaráðherra að það hafi í för með sér að verð á ýmsum algengum neysluvörum lækki verulega.

Ef við skoðum hvað hækkun virðisaukaskatts á mat og drykk þýðir fyrir meðalútgjöld íslenskra heimila og notum tölur frá Hagstofu Íslands, þá eru þau uppreiknuð í dag 890 þúsund krónur á ári. 

Eftir hækkun virðisaukaskattsins þá fara útgjöld í mat og drykki í 931.600 krónur. Það þýðir að meðalútgjöld í mat og drykk hækka um 41.600 krónur á ári. Hækkunin nemur því tæplega 3.500 krónum á mánuði.

Rétt er að geta þess að þarna er ekki tekið með í reikninginn afnám vörugjalda og sykurskatts, en samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu er afar flókið og erfitt að reikna út hvernig það skilar sér í verðlagi á matvöru. 

Nokkrir þingmenn Framsóknarflokksins hafa lýst yfir mikilli andstöðu sinni við hækkun virðisaukaskatts á matvöru og segjast ekki geta stutt tillöguna. 

Bændasamtökin mótmæla hækkun matarskattsins harðlega og telja þau skerða samkeppnisstöðu innlendra búvara. Sindri Sigurgeirsson, formaður Bændasamtakanna, segir að lágur matarskattur stuðli að því að allir geti notið heilnæmra landbúnaðarvara sem framleiddar eru hér á landi og segir hækkunina koma illa niður á láglaunahópum.

Þá sendi stjórn Framsóknarfélags Skagafjarðar frá sér fréttatilkynningu í dag þar sem áformum stjórnvalda er hafnað alfarið og þau sögð ganga gegn þeim er lakari hafi kjörin og stríða gegn stefnu flokksins um jöfnuð og velferð. Hún segir að Framsóknarflokkurinn verði að vera trúverðugur og tala fyrir sömu áherslum hvort sem flokkurinn er í ríkisstjórn eða stjórnarandstöðu, en Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra sagði þegar hann var í stjórnarandstöðu að hækkun virðisaukaskatts á matvörur væri aðför að láglaunafólki. 
Í færslu á heimasíðu sinni í dag segir hann hinsvegar að gagnrýni hans á hugmyndir um hækkun virðisaukaskatts á matvæli í tíð síðustu ríkisstjórnar hafi verið í samhengi við aðrar skattahækkanir á þeim tíma – ekki hvað síst með vísun í að efra þrepið væri orðið óeðlilega hátt.