Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Mat Snowdens byggi á þingsályktun

10.06.2013 - 19:17
Mynd með færslu
 Mynd:
Maðurinn sem lak upplýsingum um eftirlit Þjóðaröryggisstofnunar Bandaríkjanna með síma- og netnotkun fólks telur að öryggi sínu sé best borgið á Íslandi. Sem stendur fer hann huldu höfði í Hong Kong.

Edward Snowden hefur unnið sem verktaki hjá bandarísku leyniþjónustunni, CIA, og þjóðaröryggisstofnuninni, NSA. Hann lak gögnunum í Guardian og Washington Post um það kerfi sem NSA notar til að fylgjast með símanotkun og netsamskiptum fólks.

Snowden segir almenning þurfa að þekkja hvaða aðgerðir stjórnvöld beiti og hvaða stefnu þau aðhyllast til þess að geta sjálfur metið hvort þær séu góðar eða slæmar.

Hann segir ekki hættulaust að stíga fram gegn valdamestu leyniþjónustum heims. Þær séu svo sterkir andstæðingar að í raun sé ekki mögulegt að rísa gegn þeim. Vilji þær hafa hendur í hári manns, takist þeim það fyrr eða síðar. Þó sé skársti kosturinn ef til vill pólitískt hæli á Íslandi, en þar ríki ákveðin velvild gagnvart uppljóstrurum.

Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Píratanna, segir að vafalaust byggi Snowden þetta álit á þingsályktun sem Alþingi samþykkti 2010 um að Ísland skapaði sér sérstöðu um vernd tjáningar- og upplýsingafrelsis. Alþjóðlega IMMi stofnunin tengist henni.

Birgitta telur þessa afstöðu ekki fjarri lagi, enda þótt ekki hafi öll lög IMMI-stofnunarinnar tekið gildi á Íslandi. Núverandi forsætisráðherra Íslands hafi til stutt þingsályktunartillöguna. Birgitta segist vita til margra í núverandi ríkisstjórn sem sé annt um upplýsingafrelsi á Íslandi.

En enn um sinn er Snowden í Hong Kong og óvíst hvort kínversk stjórnvöld beiti sér berist framsalsbeiðni frá Bandaríkjunum.