Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Marsípanpáskaegg

16.03.2016 - 09:59
Mynd með færslu
 Mynd: DR
16 stk Marsípan-núggategg

 

2 ósprautaðar appelsínur
475 g hreint, hrátt marsípan
160 g gott, mjúkt núggat

Súkkulaðihjúpur og sáldur

 

350 g dökkt súkkulaði, um það bil 60%
15 g fínt saxaðir, ósaltaðir pistasíukjarnar

Aðferð:
Marsípanegg:
Skolið appelsínurnar og rífið börkinn fínt á bökunarplötu með bökunarmottu eða smjörpappír. Setjið plötuna í 50 gráðu heitan ofn og látið hann þorna í ofninum í 10 mínútur.
Takið plötuna út úr ofninum og látið kólna í nokkrar mínútur.
Hnoðið helminginn af appelsínuberkinum og marsípaninu saman með höndunum í jafnt deig. Skiptið marsípandeiginu í 16 jafnstór stykki. Skiptið líka núggatinu í 16 jafnstór stykki.

Pakkið nú hverju litlu núggatstykki inn í appelsínumarsípandeig með því að vefja marsípaninu utan um núggatið svo að það hyljist alveg. Rúllið þeim fyrst í kringlóttar kúlur og því næst í fín egg. Leggið þau á bökunarpappír og látið þau loftþorna við stofuhita.

Temprið súkkulaðið:
Saxið súkkulaðið fínt. Bræðið aðeins meira en helminginn varlega í skál yfir heitu vatnsbaði (ekki sjóðandi) upp í 48–50 gráður. Setjið hinn helminginn af fínt söxuðu súkkulaðinu í aðra stóra skál.

Hellið helmingnum af 48–50 gráðu heitu, bráðnu súkkulaðinu í skálina með fínt saxaða súkkulaðinu svo að þetta tvennt bráðni hægt og rólega saman meðan hrært er.

Bætið meira og meira af bráðna súkkulaðinu út í ef þörf er á. Hitinn á tempraða súkkulaðinu er nú 31–33 gráður. Ef farið er yfir 34 gráður þarf að tempra upp á nýtt.

Dýfið eggjunum einu í einu í tempraða súkkulaðið með súkkulaðigaffli.
Setjið hjúpuð eggin á smjörpappír og sáldrið strax fínt söxuðum pistasíukjörnum og þurrkuðum appelsínuberki yfir. Látið hjúpinn harðna nokkrar mínútur í ísskáp.

Geymið súkkulaðieggin við 10–15 gráður í loftþéttu íláti.

Hægt er að pakka þeim fallega inn í sellófan og gefa einhverjum sem ykkur þykir sérlega vænt um.

 

sigrunh's picture
Sigrún Hermannsdóttir