Markviss skref á næstu mánuðum

20.01.2015 - 22:31
Mynd með færslu
 Mynd:
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra gerir ráð fyrir að markviss skref verði stigin í afnámi hafta á fyrstu þremur mánuðum ársins. Stjórnvöld hafa ekki gefið neinar formlegar yfirlýsingar um breytingar á sérfræðingahópnum sem vinnur að afnámi haftanna.

Þegar ríkisstjórnin var mynduð vorið 2013 lýsti hún því yfir að eitt mikilvægasta verkefni hennar yrði að vinna að afnámi fjármagnshafta. Rúmum sex árum eftir að höftin voru sett á, virðist kominn skriður á vinnu stjórnvalda, þótt enn sé ekki byrjað að aflétta þeim.

Fulltrúar stjórnvalda hittu allar slitastjórnir gömlu bankanna fyrir rúmum mánuði. Þá sagðist Lee Bucheit vona að ferlið væri byrjað að nálgast endinn. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra sagði í viðtali á Bylgjunni 4. janúar að líkur væru á að skref yrðu tekin í átt að afnámi hafta í þessum mánuði.

„Ég skal ekki útiloka það að við náum einhverjum áföngum í þessum mánuði,“ segir Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra. „Það þarf ekki að þýða að við tökum ákvörðun um afnám hafta á einhverjum einstökum sviðum heldur en að það verði stigin markviss skref. Það skiptir svo sem ekki öllu hvorum megin mánaðamótanna það gerist en við erum að horfa til þess að nota þessa mánuði núna, janúar, febrúar og mars, til þess að stíga markviss skref.“

Stjórnvöld hafa sett á fót ýmsar nefndir og hópa og ráðið til sín ráðgjafa. Í ráðherranefnd um efnahagsmál sitja forsætisráðherra og fjármálaráðherra. Þá er til stýrinefnd um losun hafta, þar sem sitja fjármálaráðherra, seðlabankastjóri og fleiri.

Loks var í sumar skipaður framkvæmdahópur, undir forystu fjármálaráðgjafans Glenns Kims. Hópurinn á að vinna að afnáminu með erlendum ráðgjöfum í umboði stýrinefndarinnar. Mikil leynd hvílir yfir störfum framkvæmdahópsins. Talsvert hefur verið rætt um mögulegan ágreining oddvita ríkisstjórnarflokkanna um hvaða leiðir skuli fara við afnám haftanna en viðmælendur fréttastofu í stjórnkerfinu hafna því að ágreiningur tefji vinnuna.

9. janúar tilkynnti MP banki að framkvæmdastjóri hjá bankanum, Sigurður Hannesson, hefði fengið leyfi frá störfum til að vinna fyrir stjórnvöld að losun hafta. Sigurður er vinur og ráðgjafi Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra og var formaður sérfræðingahóps um skuldalækkun. Kjarninn og DV hafa sagt að stofna eigi nýjan haftahóp, meðal annars með Sigurð innanborðs, til að hrinda í framkvæmd áætlun stjórnvalda um losun fjármagnshafta. Sigurður vildi ekki ræða skipan sína við fréttastofu og vísaði á fjármálaráðuneytið.

Það hefur ekkert verið tilkynnt um þetta af hálfu stjórnvalda og hefur verið erfitt að fá upplýsingar um það. Hvers vegna er það? „Við erum í miðjum klíðum við að svona fínpússa nýtt skipulag fyrir þessi mál en það er alveg rétt, ég geri ráð fyrir að hann verði viðbót við þennan hóp manna sem kemur að málinu með beinum hætti á næstu vikum,“ segir fjármálaráðherra.

Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi