Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Markmiðum ekki náð án borgarlínu

Mynd með færslu
 Mynd:
Loftslagsmarkmiðum verður ekki náð án þess að fleira fólk nýti sér aðra valkosti en einkabílinn sögðu samgönguráðherra og fleiri þingmenn á Alþingi í dag. Þar fór fram umræða um almenningssamgöngur og borgarlínu. Fjöldi þingmanna lagði áherslu á að borgarlína yrði að veruleika en tveir sögðust ekki vita hvað borgarlína væri. Það var til þess að annar þingmaður hvatti þá til að kynna sér fyrirbærið.

Kolbeinn Óttarsson Proppé, þingmaður Vinstri grænna og upphafsmaður umræðunnar, vísaði til rannsókna á umferðarþróun. Samkvæmt þeim eykst umferð á höfuðborgarsvæðinu um 25 prósent til ársins 2033 ef ráðist er í gerð borgarlínu og vegaframkvæmdir. Ef það er ekki gert en aðeins ráðist í vegaframkvæmdir eykst umferðarþunginn um 40 prósent og tafir um 23 prósent. Kolbeinn vísaði til stuðnings stjórnvalda við almenningssamgöngur og hjóla- og göngustígagerð upp á einn milljarð á ári síðustu ár. Það væri þó ekki nóg. Meira þyrfti að gera til að fá fleira fólk til að nota aðra ferðamáta en einkabílinn. Öðruvísi næðust ekki markmið Íslands í loftslagsmálum.

„Öll rök hníga að því að við eigum að ráðast í alvöru uppbyggingu þegar kemur að borgarlínu,“ sagði Kolbeinn. „Þess vegna er það ánægjulegt hversu vel ríkisstjórnin hefur tekið undir það og skrifað undir viljayfirlýsingu við sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu.”

Mynd með færslu
 Mynd:
Kolbeinn Óttarsson Proppé.

Brýnt að hraða uppbyggingu borgarlínu

Sigurður Ingi Jóhannsson samgöngumálaráðherra sagði að nauðsynlegur undirbúningur borgarlínu hæfist í ár og á næsta ári. Til þess veitir ríkið samtals 800 milljónir króna gegn jafnháu framlagi sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu. Verklegar framkvæmdir geta svo hafist árið 2021. Hann sagði ríkið hafa komið með virkum hætti að því að gera borgarlínu að veruleika. Næstu skref felast í að semja við sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu um aðkomu þeirra og ríkisins að verkefninu, sagði samgönguráðherra.

Loftslagsmarkmiðum verður ekki náð án þess að fleiri ferðist með umhverfisvænum hætti sagði Sigurður Ingi. Bjóða verður upp á samkeppnishæfan valkost við einkabílinn innan höfuðborgarsvæðisins. „Það er brýnt að hraða uppbyggingu borgarlínu í ljósi uppbyggingar íbúða á höfuðborgarsvæðinu og á vaxtarsvæðum.“

Óttast að fé fylgi ekki

Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, sagðist óttast að ríkisstjórnin ætlaði ekki að setja nauðsynlegt fjármagn í borgarlínu. Hún sagði 800 milljónir á tveimur árum hvergi nærri því að duga. Þess í stað þyrfti 2,25 milljarða á ári en ekki væri gert ráð fyrir þeim í fjármálaáætlun stjórnvalda. Hún velti því upp hvort stjórnvöld ætluðu ekki að standa við samkomulagið við sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu um uppbyggingu borgarlínu. Að auki hefðu sveitarfélög um allt land sagt upp samningum við ríkið um rekstur almenningssamgangna.

Sigurður Ingi var ósáttur við orð Helgu Völu og sagði í seinni ræðu sinni. „Það er orðið hvimleitt, leiðinlegt, að þurfa æ ofan í æ að leiðrétta staðreyndavillur hér eru fluttar af henni í þessum ræðustól. Það er óþolandi, ég ætla ekki að eyða lengri tíma í það.”

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Rúnar Snær Reynisson - Nýir strætisvagnar

Flott orð til að réttlæta ýmsa hluti

Sigurður Páll Jónsson, þingmaður Miðflokksins, sagði samgöngumál vera stærsta innviðamál Íslendinga. Samgöngumál þurfa að vera í lagi til að byggð þrífist um allt land, sagði hann. Sigurður Ingi sagði að menn yrðu því að spyrja gagnrýninna spurninga, ekki síst í ljósi þess að sex milljarða stuðningur við aðra ferðamáta en einkabíl á sex árum hefðu ekkert aukið hlutdeild Strætós í ferðum íbúa höfuðborgarsvæðisins.

Guðmundur Ingi Kristinsson, þingmaður Flokks fólksins, spurði hvort borgarlína væri ekki bara strætólína. „Mér finnst borgarlína vera eitthvað flott orð til að réttlæta ýmsa hluti.“

Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður Miðflokksins, sagði að ríkisvaldið hefði dregið lappirnar á öllum sviðum almenningssamgangna á síðustu árum; flugi, rútuferðum og ferjum, og nú ætti að fjarlægja flugvöllinn. „Ég hef ekki enn hitt þann mann sem getur sagt mér hvað borgarlína er.”

Þingmenn kynni sér málin

Bryndís Haraldsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og fyrrverandi formaður bæjarráðs í Mosfellsbæ, hvatti Þorstein og aðra þingmenn til að kynna sér hugmyndirnar um borgarlínu. Hún sagði að gera þyrfti greinarmun á almenningssamgöngum á höfuðborgarsvæðinu og umræðu um ferju- og rútuferðir sem þingmenn hefðu dregið fram. Á höfuðborgarsvæðinu væri um fjöldaflutninga að ræða. „Það er það sem skiptir máli þegar kemur að loftslagsmálum.“

Bryndís sagði að alls staðar í hinum vestræna heimi væru það ekki aðeins sveitarfélögin heldur líka fylki og ríki sem tækju þátt í kostnaði við uppbyggingu almenningssamgangna.  

Mynd með færslu
 Mynd:
Þingmenn í þingsal.

Almenningssamgöngur í víðu samhengi

Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagðist vilja horfa á almenningssamgöngur í víðu samhengi. Þær væru ekki bara strætó í þéttbýli heldur líka, rútur í dreifbýli og innanlandsflug og ferjur.

Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, sagði að óábyrgir stjórnmálamenn hefðu gert borgarlínu að kosningamáli í síðustu sveitarstjórnarkosningum.

Ari Trausti Guðmundsson, þingmaður Vinstri grænna, sagði að í væntanlegu meirihlutaáliti umhverfis- og samgöngunefndar um samgönguáætlun væri fjallað um þessi málefni. „ Það er auðvitað verið að fjalla um þetta í þessu áliti. Það er ekki eins og þar standi ekki neitt.” Hann sagði að ástæðan fyrir því að ekki væru komnar fram tölur um fullfjármagnaða borgarlínu væri sú að samráð ríkis og sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu væri enn í gangi.

„Borgarlínan er grunnur að raunverulegum valkosti í samgöngum innan höfuðborgarsvæðisins,“ sagði Líneik Anna Sævarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins.

„Show me the money“

Jóhanna Vigdís Guðmundsdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði innviðina vera lífæð samfélagsins, fjárfesting í samgöngumálum hefði verið vanrækt. Hún sagði að raunhæfir valkostir í almenningssamgöngum væru eina raunhæfa leiðin til að draga úr töfum í umferð og minnka mengun. Í lokin kallaði hún eftir því að stjórnvöld segðu hvaða fé ætti að fara í verkefnið og vísaði í myndina Jerry Maguire með lokaorðum sínum: „Show me the money!“

Jón Þór Ólafsson, varaforseti þings, sagði að þetta hefði verið skemmtilegt hjá þingmanninum en að ef þingmenn hygðust vitna í texta á erlendum málum yrði þeir líka að þýða hann yfir á íslensku.

Að horfast í augu við nýja tíma

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, sagði að borgarlína væri að verða eitt þeirra mála sem sýndu afstöðu fólks. Hvort að það skynjaði nýja tíma í mótun eða væri of hrifið af gamalli tíð til að sjá þá. Að þessu leyti svipaði málinu til umræðunnar um loftslagsmál.

„Sú leið að byggja sig út úr vandanum með fleiri hraðbrautum er úr sögunni,“ sagði Þorgerður Katrín. Hún sagði orðið tabú fyrir suma ráðamenn. „Fyrir þessa ríkisstjórn virðist orðið borgarlína vera eins og Macbeth í leikhúsinu, orðið sem ekki má nefna.“

Sara Elísa Þórðardóttir, varaþingmaður Pírata, sagði að svo virtist sem mál hefðu þróast til betri vegar síðustu mánuði. Hún sagði að ekki mætti vanmeta hversu miklu máli öflugar almenningssamgöngur skiptu fyrir íbúa og loftslagsmál.

Hanna Katrín Friðriksson, þingflokksformaður Viðreisnar, sagði að ekki dygði loðið orðalag um uppbyggingu í samgöngumálum sem enduðu með því að borgarbúar greiddu meira en aðrir. Hún sagði ekki hægt að ganga frá samgönguáætlun án þess að taka á samgöngumálum á höfuðborgarsvæðinu. „Borgarlínan er lykillinn að lausninni.“

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV