Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Markaðurinn hugsanlega að róast

12.10.2018 - 18:28
Mynd með færslu
Jón Bjarki Bentsson, aðalhagfræðingur Íslandsbanka Mynd: Íslandsbanki
Aðalhagfræðingur Íslandsbanka, segir að litlar breytingar hafi orðið á gengi íslensku krónunnar í dag og hugsanlega sé markaðurinn að róast. Verði krónan áfram stöðug þurfi Seðlabankinn ekki að grípa inn í gjaldeyrismarkað á nýjan leik.

Gengi krónunnar hefur fallið um sex prósent á síðustu vikum og er hún nú orðin veikari en fyrir inngrip Seðlabankans á gjaldeyrismarkaði í síðasta mánuði. Krónan hefur nú veikst um níu prósent frá ársbyrjun. Jón Bjarki Bentsson, aðalhagfræðingur Íslandsbanka, segir að hugsanlega sé markaðurinn nú að róast. Ástæður hraðrar veikingar séu margar. „Mig grunar að þarna séu frekar væntingar að verki og skammtíma óvissa í ferðaþjónustunni og hvort að krónan hafi verið orðin í sterkara lagi undanfarna mánuði,“ segir Jón Bjarki.

Jón segir að stoðirnar séu tiltölulega sterkar en þegar áhyggjur magnast á markaðnum geti áhrifin orðið veruleg þrátt fyrir að veltan sé ekki endilega mikil. Seðlabankinn grípi inn í ef krónan veikist hratt marga daga í röð. fleiri dagar koma með hraðri veikingu.

„Ef það koma fleiri dagar með hraðri veikingu í lítilli veltu sem er þá til marks um að það sé spríralmyndun að verki á markaði þá kemur Seðlabankinn aftur inn. Það er í samræmi við þá stefnu sem þeir hafa markað, að draga úr skammtímasveiflum og koma í veg fyrir að grunnur og einhliða markaður veldi ógurlegum sveiflum. En ef að markaðurinn er að róast, ef það koma fleiri dagar eins og í dag, þá skipta þeir sé ekki af markaðnum, held ég.“ 

ingvarthor's picture
Ingvar Þór Björnsson
Fréttastofa RÚV