Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Markaðssinnaðir vinstriflokkar í úlfakreppu

25.01.2016 - 12:21
Mynd: Óðinn Jónsson / Morgunvaktin
Þorvaldur Þorvaldsson gengst við því að vera kallaður kommúnisti, en segir að Alþýðufylkingin sé ekki kommúnistaflokkur heldur bandalag kommúnista, sósíalista og vinstrimanna – allra annarra en tækifærissinna. Stefnuskráin snúist ekki um heimspekilega undirstöðu heldur raunverulegar umbætur á samfélaginu.

En má þá tala um að hann vilji byltingu? „Jú, ef að þær umbætur sem við setjum fram í stefnuskrá koma til framkvæmda, þá er það ígildi byltingar,“ sagði Þorvaldur á Morgunvaktinni á Rás 1.

Þorvaldur Þorvaldsson starfaði með Vinstri grænum áður en hann stofnaði Alþýðufylkinguna, sem bauð fram við síðustu Alþingiskosningar en hlaut lítið fylgi. Flokkurinn vill róttækar breytingar – en eftir lýðræðislegum leiðum. „Ég held í raun og veru að engin samfélagsbylting til hagsbóta fyrir alþýðuna geti átt sér stað nema á lýðræðislegan hátt“.

Þorvaldur segir að framvindan á síðustu árum sýni mikilvægi þess að sjónarmið róttækra sósíalista nái fram að ganga. Flokkar sem kennt hafi sig við vinstristefnu, en hallað sér að því að láta markaðinn stýra samfélaginu, hafi beðið skipbrot og vonist bara til að fólk gleymi síðasta kjörtímabili. Þorvaldur beinir spjótum sínum þá fyrst og fremst að Vinstri grænum. „Hvaða gagn er að því að kynna sig sem umhverfisflokk, komast svo í ríkisstjórn og semja um olíuborun á Drekasvæðinu og tala fyrir því að leggja sæstreng til Skotlands, sem óhjákvæmilega gerir kröfur um að hámarka virkjanir í landinu?“

Það er þessi markaðsvæðing samfélagsins sem Þorvaldur og félagar tala gegn. „Við viljum félagsvæða samfélagið, alla þjónustu sem fólk þarf á að halda. Og fjármálakerfið telst til þessara innviða.“

Þorvaldur Þorvaldsson segir að Alþýðufylkingin sé ekki af baki dottin. Hann biðlar til róttækra vinstrimanna, sem af taktískum ástæðum hafa kosið Vinstri græna. Þorvaldur segir hins vegar að Vinstri grænir séu búnir að vera: „Vinstri græn mun aldrei bera sitt barr sem flokkur, heldur mara í kafi og svamla áfram. En þau munu aldrei, nema með róttækri uppstokkun og endurskoðun, komast út úr þeirri úlfakreppu sem þau eru í“. 

odinnj's picture
Óðinn Jónsson
dagskrárgerðarmaður