Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

María varð nærri 3000 að bana

29.08.2018 - 04:42
Jonathan Aponte walks with a gas can up the road to his home in the aftermath of Hurricane Maria, in Yabucoa, Puerto Rico, Tuesday, Sept. 26, 2017. Governor Ricardo Rossello and Resident Commissioner Jennifer Gonzalez, the island’s representative in
María olli miklum skemmdum í Púertó Ríkó. Mynd: AP
Yfirvöld í Púertó Ríkó segja nærri þrjú þúsund hafa látið lífið af völdum fellibylsins Maríu sem reið yfir eyjuna í september í fyrra. Það eru nærri fimmtíufalt fleiri en áður var talið. 

Opinber fjöldi látinna af völdum fellibylsins hefur hingað til verið 64. Ricardo Rossello, ríkisstjóri Púertó Ríkó, tilkynnti á blaðamannafundi í gær að að nú yrði breyting þar á, því samkvæmt óháðri rannsókn hafi 2.975 beðið bana vegna Maríu á einn eða annan hátt. 

Sérfræðingar við George Washington háskóla gerðu rannsóknina. Þar voru dánarvottorð og önnur gögn notuð til að greina fráfall íbúa eyjunnar frá miðjum september í fyrra til miðs febrúar í ár. Margir létust af völdum lélegrar heilbrigðisþjónustu og skorts á rafmagni og hreinu vatni eftir fellibylinn.

Hingað til hefur opinber tala yfirvalda yfir fjölda látinna af völdum Maríu verið 64. Þó var sleginn sá varnagli að fleiri hafi örugglega látið lífið, og telja sumir sérfræðingar að María hafi dregið á fimmta þúsund manns til dauða. 
Púertó Ríkó er enn í sárum eftir fellibylinn, nærri ári síðar. Óskað hefur verið eftir 139 milljarða dollara láni frá Bandaríkjaþingi til uppbyggingar á eyjunni, jafnvirði nærri 15 þúsund milljarða króna.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV