Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Margrét Lára: Kvennaboltinn nýtur góðs af EM

Mynd með færslu
 Mynd: Knattspyrnusamband Íslands

Margrét Lára: Kvennaboltinn nýtur góðs af EM

08.07.2016 - 15:22
Margrét Lára Viðarsdóttir, fyrirliði íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu, segist vera þakklát íslenska karlandsliðinu fyrir árangurinn á EM. Íslenska kvennaliðið njóti góðs af því. Peningarnir séu hins vegar karlamegin.

Með bestu landsliðum Evrópu síðan 2007

Margrét Lára var í viðtali í útvarpsþættinum „Woman's hour“  á BBC 4 í gær.  Umsjónarkona þáttarins vakti athygli á góðri frammistöðu íslenska karlalandsliðsins á EM í Frakklandi. Liðið, ásamt velska landsliðinu, hafi heillað marga vegna hæfileika, liðsanda og samstöðu. Íslenska karlalandsliðið hafi í fyrsta sinn verið með á lokamóti og sé í 34. sæti á styrkleikalista FIFA, Alþjóða knattspyrnusambandsins. Kvennalandsliðið hafi hins vegar tekið þátt í lokamóti EM 1995, 2009 og 2013. Og nú sé liðið í efsta sæti síns riðilis fyrir lokakeppni EM á næsta ári og nánast öruggt með að komast áfram.  Liðið sé í 16. sæti á styrkleikalista FIFA. Margrét Lára var spurð hvernig liðið næði þessum góða árangri og væri mun sigursælla en karlaliðið.  Margrét tók ekki beint undir að kvennaliðið væri sigursælla en karlaliðið en þær hafi vissulega náð mjög góðum árangri. Frá árinu 2007 hafi liðið verið með þeim bestu í Evrópu. 

Jafnræði í þjálfun hjá stelpum og strákum

Hún segir að munurinn á Íslandi og mörgum nágrannalöndum liggi í þjálfuninni. Stelpur og strákar séu frá 5 ára aldri þjálfuð af menntuðum þjálfurum. Núna sé jafnræði í þjálfun beggja kynja og krakkarnir geti valið nánast hvaða íþrótt sem er til að leggja stund á.  Þá sé aðstaðan orðin mjög góð. Hægt sé að æfa innanhúss allan ársins hring. Spyrillinn fullyrðir síðan að launamunur kynja á Íslandi sé minni en nær alls staðar annarsstaðar, en leikmenn karlalandsliðsins fái borguð atvinnumannslaun fyrir að spila fyrir þjóð sína, en konurnar ekki. Hvernig standi á því?

Peningarnir frá UEFA og FIFA fara í karlana

„Já þetta er góð spurning“ segir Margrét Lára.  „Þetta snýr ekki einvörðungu að Knattspyrnusambandi Íslands. Evrópska knattspyrnusambandið, UEFA, og Alþjóða knattspyrnusambandið, FIFA, útdeila háum fjárhæðum til að borga karlkynsspilurum laun. Hluti fer í barna- og unglingastarf og mjög lítill hluti í kvennastarfið. KSÍ hefur að mörgu leyti staðið sig vel í að efla kvennaboltann en það sama verður ekki sagt um UEFA og FIFA“. 

Þarf sífellt að spyrja sig um forgangsröðun

Margrét Lára er spurð hvernig meistarflokkskonur og landsliðskonur nái að samræma þjálfun og keppni við daglega vinnu, nám, heimilisstörf og barnauppeldi. Margrét Lára, sem er 30 ára gömul móðir í sálfræðinámi, segir að þetta sé stundum erfitt.  Hún þurfa að spyrja sig hvernig hún eigi að forgangsraða. Lokamót EM verði á næsta ári. Hún þurfi að meta hvort hún eigi að æfa meira á kostnað námsins. Er sanngjarnt gagnvart eiginmanni og syni að hún sé sífellt að spila fótbolta? Landsliðskonurnar spili af miklu stolti og ánægju fyrir land sitt. Hún sé hins vegar ekki að yngjast og ekki þéni hún á fótboltanum. Hún verði að huga að fjárhagslegri framtíð fjölskyldu sinnar. Hún gæti þetta ekki nema nánast fjölskylda styddi hana heilshugar og hjálpaði til.

Botnlaus vinna, samstaða og liðsandi lykillinn að árangri

Margrét Lára segir að nú séu allir að tala um EM lokakeppni kvenna í Hollandi á næsta ári. Hún sé mjög þakklát íslenska karlalandsliðinu, því það hafi sýnt fram á hverju hægt sé að áorka og það sé á allra vörum í Evrópu. Íslenskur fótbolti hafi fengið mjög góða kynningu og það komi íslenska kvennaliðinu til góða. Bæði landsliðin megi hins vegar aldrei gleyma að á bak við árangur sé gríðarleg vinna. Leikmennirnir verði að gefa allt sitt til að lið þeirri verði sigursælt og þá sé liðsandinn og samstaðan mikilvægust.